Úrslit úr vísnakeppni 2009

Beðið eftir úrslitum vísnakeppninnar.  Mynd Sc.com

Mjög góð þátttaka var í Sæluvikuvísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga að þessu sinni. Alls bárust 45 úrlausnir í keppnina sem er miklu meira en undanfarin ár.

 

 

 

Á heimasíðu Safnahússins er líkum að því leitt að sá möguleiki að senda vísur og botna yfir netið hafi aukið þátttökuna. Vísurnar skiptu því hundruðum og margar góðar og verðlaunahæfar.

 

Eftir miklar pælingar ákvað dómnefnd að verðlauna eftirfarandi botna.

 

 

 

Bankakerfið hrundi í haust,

 

heiðri glatar þjóðin.

 

Ekki dugði endalaust

 

illa fengni gróðinn.

 

 

 

Botninn reyndist eftir Pétur Stefánsson í Reykjavík. Einnig var verðlaunaður botn eftir Þórarinn M. Baldursson í Reykjavík

 

 

 

Nú er vetur burt úr bæ,

 

bráðum getur sungið lóa.

 

Fækkar hretum, fisk úr sæ

 

fá í netin þeir sem róa.

 

 

 

Loks ákvað dómnefnd að verðlauna sem bestu vísu eftir Hólmfríði Bjartmarsdóttur frá Sandi í Aðaldal.

 

 

 

Framtíð landsins fór í pytt,

 

fátt um það að segja.

 

Fjárhirðarnir fluttu mitt

 

fé til Jómfrúreyja.

 

 

 

Það var Sparisjóður Skagafjarðar sem lagði fram verðlaun til keppninnar og er honum þakkaður stuðningurinn. Á næstu dögum verður birt ítarleg umfjöllun um keppnina á heimasíðu Safnahússins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir