Ugla Stefanía hlutskörpust í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi

Ugla Stefanía. MYND AF NETINU
Ugla Stefanía. MYND AF NETINU

Píratar hafa skipað sína framboðslista að afloknu prófkjöri. Í Norðvesturkjördæmi var það Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir sem bar sigur úr býtum og leiðir því lista Pírata í komandi kosningum. Ugla Stefanía er frá Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu en hún er kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks.

Sem fyrr segir er Ugla í efsta sæti listans, Sunna Einarsdóttir er í öðru sæti, Pétur Óli Þorvaldsson í þriðja og Sigríður Elsa Álfhildardóttir því fjórða.

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að leiða lista Pírata í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Kærar þakkir öll sem kusuð mig. Það er ótrúlega gott að finna svona mikinn stuðning í minn garð. Sömuleiðis langar mig að óska öllum sem tóku þátt í prófkjörinu til hamingju,“ segir í Facebook-skilaboðum á vegg Uglu Stefaníu.

„Það er alveg ljóst að það vantar ferskan blæ í íslensk stjórnmál, og fólk sem vill alvöru breytingar og umbætur fyrir okkur öll. Það vil ég svo sannarlega gera og sýna að ég er traustsins verð. Og til þess þarf ég áframhaldandi stuðning, og þá sérstaklega fólks í Norðvesturkjördæmi sem ég er spennt að eyða miklum tíma með á næstu vikum. Sjáumst í baráttunni!“ skrifar Ugla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir