Þremur frá Norðurlandi vestra veitt viðurkenning á Nýsveinahátíð IMFR

Þeir nýnemar sem fengu viðurkennigar í ár. Mynd tekin af imfr.is.
Þeir nýnemar sem fengu viðurkennigar í ár. Mynd tekin af imfr.is.

Þann 8. febrúar fór fram 19. Nýsveinahátíð IMFR á Reykjavík Natura Berjaya Iceland Hotels (áður Lofleiðahótelið) að viðstöddu forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, sem sá einnig um að afhenda viðurkenningarnar, ráðherra mennta- og barnamála, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmönnum, meisturum nýsveinanna, heiðursiðnaðarmönnum og öðrum góðum gestum.

Að þessu sinni voru 28 nýsveinar sem hlutu viðurkenningar fyrir árangur í sínum greinum. Feykir sagði frá því fyrr í mánuðinum að Heiðdís Líf Jóhannsdóttir hafi hlotið viðurkenningu fyrir afburða árangur í sinni grein, Iðngrein - Framreiðslu, en hún var ekki sú eina frá þessu svæði (Norðurland vestra) sem hlaut þennan glæsilega heiður því þarna voru einnig Hekla Guðrún Þrastardóttir, sem fékk viðurkenningu fyrir bakaraiðn, og Bergur Líndal Guðmundsson, sem fékk verðlaun fyrir rafvirkjun, á ferðinni. 

Þá er gaman að segja frá því að Hekla Guðrún upplifði skemmtilegt ævintýri í fyrra þegar hún fékk að starfa í frönsku handverksbakaríi, Parémi, í miðborg Vínar og segir hún nánar frá því í hlaðvarpi Iðunnar. Hekla Guðrún hlaut styrk frá Erasmus+ sem er styrkur til námsdvalar í öðru Evrópulandi. Markmiðið með námsdvöl í öðru landi er að kynnast betur sínu fagi í alþjóðlegu samhengi og veita innsýn í líf og störf fólks í útlöndum. Reynslan af slíkri námsdvöl er dýrmæt og getur aukið starfsmöguleika bæði heima og erlendis. Hekla Guðrún líkaði mjög vel þarna og endaði á að dvelja í fjóra mánuði í Vínarborg. Þetta ævintýri hennar endaði með því að henni var boðin vinna í bakaríinu sem og hún þáði og byrjaði hún að vinna þar núna í janúarbyrjun. 

Hekla Guðrún sagði í samtali við Iðuna: „Mér fannst þetta spennandi, bakaríið eiga hjón og maðurinn er franskur. Þetta er lítið og sætt bakarí. Það er mikið af flottum vörum og mjög fjölbreyttum,“ segir Hekla Guðrún sem segir fleiri hafa starfað með henni í bakaríinu í gegnum Erasmus+ áætlunina, til dæmis frá Þýskalandi og Noregi. Nám í bakstri er mismunandi milli þessara landa en Hekla Guðrún segist hafa staðið sterk á svellinu með sveinsprófið sitt frá Íslandi. „Í náminu ytra er miklu meiri sérhæfing,“ segir Hekla Guðrún og á við konditornámið. „Á meðan að hér tökum við þetta í einum pakka, sem hjálpaði mér mikið.“

Feykir óskar þeim til hamingju með frábæran árangur og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir