Tindastóll sigraði ÍH/HV 2-1
Fyrsti heimaleikur Tindastóls fór fram í gær og fengu ÍH/HV í heimsókn. Tindastóll var betri aðilinn í leiknum og sóttu án afláts fyrsta hálftíman en þvert á gang leiksins skoruðu gestirnir fyrsta markið.
Á vef Tindastóls er lýsing á leiknum og er eftirfarandi:
Knattspyrnudeild Tindastóls var búin að gefa það út að frítt yrði á alla heimaleiki sumarsins í samstarfi við fyrirtæki á Sauðárkróki. Tengill reið á vaðið og bauð á þennan leik.
Byrjunarlið Tindastóls var eftirfarandi: Gísli Sveins, Jóhann Helga, Bjarki Már, Stefán Arnar, Pálmi Þór, Sævar, Árni Arnarson, Árni Einar, Konni, Ingvi Hrannar og Fannar Örn.
Tindastóll byrjaði betur í leiknum, liðið lék undan léttri golunni og hefði átt að skora amk. tvö mörk í fyrri hálfleiknum. Fannar Örn komst einn í gegn og ætlaði að vippa yfir markmanninn sem lét strákinn ekki plata sig og varði vel. Ingvi Hrannar átti mjög gott skot á markið sem markvörðurinn varði líka feykivel.
Tindastóll virtist stjórna gangi leiksins og því var það eins og köld vatnsgusa í andlit þeirra þegar ÍH/HV skoraði ágætt mark á 28. mínútu eftir einhvern misskilning í vörninni. Það var Óli Jón Kristjánsson sem skallaði boltann örugglega í markið án þess að Gísli ætti nokkurn möguleika á að verja.
Það tók Tindastólsmenn nokkurn tíma að koma sér inn í leikinn aftur en smátt og smátt tóku þeir aftur völdin og á 36. mínútu jafnaði fyrirliði Tindastóls, Bjarki Már Árnason með laglegu skoti inn í vítateig eftir hornspyrnu frá Árna Einari.
Ágætur dómari leiksins Einar örn Daníelsson flautaði til hálfleiks og áhorfendur fengu sér kaffi og nýjar pönnukökur.
Jóhann Helga fór útaf í hálfleik og Fannar Freyr kom inn. Konni kom niður í bakvörðinn, Fannar Örn datt niður á miðjuna og Fannar Freyr fór upp á topp.
Seinni hálfleikurinn var sjálfsagt ekki mjög skemmtilegur fyrir augað. Langar sendingar Tindastólsmanna gengu ekki nægilega vel upp og yfirhöfuð voru sendingar þeirra frekar slakar.
Ingvi Harnnar var þó nálægt því að skora mark en skot hans var varið á marklínu. Þegar um 80 mínútur voru liðnar af leiknum fóru þeir Ingvi Hrannar og Sævar útaf og í þeirra stað kom skemmtileg blanda; Kristmar Geir, hokinn af reynslu og Atli Arnarson sem enn er í 3. flokki. Þetta breytti leiknum og aukinn þungi kom í sókn Tindastóls. Kristmar gerði góða hluti og átti Konni gott skot sem hafnaði í hliðarnetinu.
Á 89. mínútu fengu Tindastólsmenn hornspyrnu og Bjarki Már skallaði glæsilega í markið við mikinn fögnuð leikmanna og áhorfenda. Ekki náðu mótherjarnir að svara þessu og Tindastólsmenn voru skynsamir á lokamínútunum.
Öftustu menn okkar áttu góðan dag, Gísli, Jói, Stefán, Bjarki og Pálmi. Miðjan á mikið inni og eins sóknin. Það sem helst vantaði uppá voru sendinarnar sem alls ekki voru nægilega markvissar en það er eitthvað sem hægt er að vinna í. En sigur vannst og það er það sem skipti máli. Tindastóll hefur náð í 4 stig í tveim fyrstu leikjunum sem er alveg viðunandi.
Um 300 manns var á vellinum og vonandi að enn bætist í hópinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.