Tindastóll hlýtur Grasrótarverðlaun KSÍ

Ingvi Hrannar Ómarsson og Ómar Bragi Stefánsson formaður knattspyrnudeildar Tindastóls taka við Grasrótarverðlaunum KSÍ. Ljósm./Fb-síða KSÍ.
Ingvi Hrannar Ómarsson og Ómar Bragi Stefánsson formaður knattspyrnudeildar Tindastóls taka við Grasrótarverðlaunum KSÍ. Ljósm./Fb-síða KSÍ.

Grasrótarverðlaun KSÍ árið 2016 hlýtur Ungmennafélagið Tindastóll. Á Facebook-síðu KSÍ segir að Tindastóll hafi um áraraðir haldið úti knattspyrnumóti fyrir bæði stráka og stelpur með miklum sóma, Landsbankamót Tindastóls fyrir stúlkur í 6. og 7. flokki og Króksmót Tindastóls fyrir drengi í 5., 6. og 7. flokki.

„KSÍ getur seint þakkað þeim félögum sem halda úti knattspyrnumótum fyrir yngstu iðkendur knattspyrnuhreyfingarinnar nægilega fyrir þeirra ötula starf. Tindastóll er eitt af frumkvöðlafélögum í þeim efnum og sumarið 2016 verður 30. sumarið í röð sem Tindastóll heldur úti móti. Það er því ekki nokkur spurning að Tindastóll er vel að Grasrótarverðlaunum KSÍ komið,“ segir loks á síðunni.  

Fullt á Landsbankamótið á þremur dögum

Í Feyki sem kom út sl. fimmtudag er sagt frá Landsbankamóti knattspyrnudeildar Tindatóls sem verður dagana 25. og 26. júní nk. Að sögn Ingva Hrannars Ómarssonar skipuleggjanda mótsins eru 140 lið skráð til leiks og um 40 á biðlista. „Það tók þrjá daga að fylla mótið enda mikil ánægja með móttökurnar undanfarin ár. Þetta er næst stærsta stúlknamót á landinu á eftir Símamóti Breiðabliks og mikil innspýting í samfélagið okkar,“ sagði Ingvi Hrannar í samtali við Feyki. 

Ingvi Hrannar segir að um 50 manns þurfi til að dæma leikina, aðra til að standa vaktina í sjoppu og mat, á gistivöktum og þrifum. Þá verða skólarnir (leik-, grunn- og framhaldsskólinn) notaðir í gistingu. Vinnuskólinn og sveitarfélagið munu einnig koma að mótinu og tjaldsvæðið þurfi að vera í góðu lagi sem og rafmagnið þar. Gera megi ráð fyrir því að verslanir og aðrir gististaðir verði fullir.

„Við vonumst til að margir foreldrar, ungmenni og aðilar í samfélaginu hjálpist að við það að sinna ýmsum störfum í sumar til þess að svona gangi upp. Það er gott fyrir Skagafjörð að fá svona jákvætt umtal þar sem gestir og keppendur ganga glaðir frá Króknum með góðar minningar. En til þess að svona gangi upp bæði á Landsbankamóti í júní og Króksmóti í ágúst þurfa margir að leggja hönd á plóg,“ sagði Ingvi Hrannar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir