Þuríður í Delhí - Dagur 17
Við höldum áfram að fylgjst með ferðalagi Þuríðar Hörpu en á mánudag fékk hún stofnfrumusprautu beint í mænuna. Vildi læknirinn meina að í framhaldinu hafi hún hreyft tærnar. Sjálf sagðist Þuríður ekki hafa séð þá hreyfingu en við skulum vona að læknirinn hafi séð rétt. Hægt er að styrkja ferðalag Þuríðar inná www.oskasteinn.com
Mánudagur og við snemma á ferli, best að fara í sturtu áður en ég fer í sprautu. Hafði enga lyst á ristaða brauðinu, enda er þetta brauð talsvert ólíkt því sem ég á að venjast að heiman og hvergi hef ég rekist á bakarí hér enn. Endurhæfing klukkan níu og síðan var mér sagt að ég kæmi aftur úr sprautunni seinni partinn eða í kvöld, svona eftir því hvernig til tækist. Ég var bara fegin að þurfa ekki vera á hinum spítalanum yfir nótt. Sérlegur bílstjóri hjúkrunarheimilisins keyrði okkur yfir á hinn staðinn um kl. 11.00. Þetta var annar staður en áður og ég varð alveg dauðfegin, vonaði að þetta sjúkrahús yrði skárra en það sem ég var send í á fyrstu dögunum hér. Við keyrðum í gegnum götu fulla af fólki og margir að selja grænmeti og eitthvað matarkyns, ég myndi seint þora að kaupa nokkuð af þessum kaupmönnum, í miðri götunni var svæði sem að hluta til var afgirt þarna var heljarinnar ruslahaugur og ræsi meðfram, þarna voru villt svín að gæða sér á sorpinu. Sem betur fer keyrðum við útúr þessu og inn í mun snyrtilegra hverfi, við beygðum að samfelldri byggingu sem ég veit ekki alveg hvar tók enda, í henni ægði saman íbúðum og þvottahúsum og einhverri atvinnustarfsemi og svo þetta sjúkrahús sem ég var að fara á. Eftir að hafa verið ýtt upp brattann ramp komum við inn í biðsalinn. Hann var hreinn að sjá en ég veit ekki frá hvaða tíma innréttingar og útlit biðsalarins var. Myndi þó giska á 1970, allt svona frekar þungt yfir og mikið af tréþiljum á veggjum. Eftir smástund kom hjúkrunarkonan og vísaði okkur inn á herbergi, hún afsakaði að við þyrftum að fá þetta herbergi en því miður væru betri herbergin upptekin fyrir sjúklinga sem væru í 2-3 daga sprautunum. Þarna var þó rúm og stóll fyrir aðstandanda að sitja í og svo klósett með reyndar of þröngri hurð, veggirnir voru yfirleitt í sitthvorum litnum, og mér datt í hug hús sem hústökufólk hefði tekið yfir og hefði reynt að dubba upp. Svo var komið að því, mér var skipað að pissa áður en ég færi í sprautuna en eftir hana átti ég að liggja kyrr í 4 og hálfan tíma á bakinu. Árni druslaði mér inn á klósettið og síðan var mér afhentur köflóttur sloppur opinn í bakið og alveg agalega lyktandi, eins og hann hefði verið straujaður með alltof heitu straujárni. Síðan komu inn tveir menn dubbaðir upp í blátt og báru á milli sín rúmpart eða semsagt rúm með engum fótum. Ég sagði við Árna; ekki ætla þeir tveir að halda á mér í þessu, hann bara yppti öxlum. Þeir færðu mig yfir og síðan plömpuðu þeir af stað með mig á þessum börum, smá vesen var að koma mér í gegnum hurðina og litlu munaði að þeir misstu mig þegar annar þeirra missteig sig. Ég lá bara með lokuð augun og hélt mér eins og ég gat. Síðan var börunum smellt ofan á hjólafætur fyrir framan lyftu sem aðeins rúmaði, rúmið og einn mann. Árni varð eftir niðri. Mér var ekið inní sterilt herbergi og einhvernveginn drösluðu þeir mér upp á annan sjúkrabedda með ljósi yfir. Herbergið var bjart og málað í kremgulu og stórar flísar á gólfi. Læknirinn sem hafði sprautað í rófuna á mér var mættur og talaði ekkert minna en áður. Hann spurði mig hvort ekki væri erfitt að búa við snjó og ís allt árið um kring, ég var stórhneyksluð og gerði manninum grein fyrir að það kæmi varla snjór á Íslandi nema svona rétt yfir vetrarmánuðina annars væri bara sól og blíða. Hann var svoldið undrandi og ég sá eftir að hafa ekki verið aðeins sannsögulli. Ég var sett á hliðna og í fósturstellingu, með hnén upp að höku og hökuna ofan í bringu. Brúnir kafloðnir handleggir héldu mér, læknirinn spurði reglulega hvar eða hvort ég finndi fyrir einhverju, hann sprautaði meðfram hryggnum sirka 6 cm fyrir neðan skaðann. Ég fékk heiftarlegan spasma í kviðinn, þannig að ég missti andann. Svona gekk þetta í þrjú skipti, mér var skipað að hreyfa mig ekki, eftir nokkra stund bað ég um súrefni, það var erfitt að anda því einhvernveginn þrengdi að brjóstinu og kviðnum, ég fékk súrefnið og eftir nokkra stund var þetta búið. Ég var spurð hvar ég hefði fundið þyngsli, og hvort þau hefðu náð niður í fætur. Ég var ekki alveg viss með fæturna en jú líklega hafði einhver slík tilfinning gert vart við sig. Læknirinn skipaði mér að hreyfa tærnar og ég reyndi, hann hrópaði upp yfir sig af ánægju og ég reyndi að reisa mig upp til að sjá undrið með eigin augum. Nei, nei sagði hann þá, ég tek mynd á myndavélina og sýni þér, síðan tók hann mynd og ég remdist við að hreyfa tærnar. Hann sýndi mér myndina en ég gat ekki séð neitt gerast. En ok hann var allavega himinlifandi. Nú var plampað af stað með mig enn niður í þetta glæsilega herbergi. Ég var eiginlega bara drulluuppgefin og fegin þegar þeir voru búnir að drusla mér upp í rúmið. Áður en ég fór upp hafði ég fengi glúkósadripp í æð og eina sprautu af sýklalyfi, Árna varð að orði að þetta væri jafnstór sprauta og sett væri í hross, uppörfandi það vantaði ekki;o), allavega glúkósað var örugglega um 6 til 800 ml. og ég var enn með það þegar ég kom niður. Ég lá á bakinu og dottaði enda átti ég að liggja þarna næsta 4 og hálfan tímann. Um hálfþrjú verð ég vör við að ég er orðin rennandiblaut, sem sagt farin að leka heldur betur. Fyrst var ég svoldið hissa en svo hugsaði ég að þetta væru líklega viðbrögð frá blöðrunni og ekki skrýtið að þar færi allt í spasma. Við höfðum ekki verið undirbúin undir að þetta gæti gerst og varð Árni að fara af stað að sækja föt fyrir mig. Ég lá á bekk sem var gúmíklæddur með þunnu laki sem reyndar hafði farið af þegar verið var að koma mér aftur í rúmið. Til fóta höfðu þeir hlaðið múrsteinum undir rúmfæturna til að sprautan rynni betur í átt að meiðslunum geri ég ráð fyrir. Eftir svolitla stund fann ég að ég var orðin blaut upp á herðar, þá var mér nóg boðið, hvað var þetta fólk að hugsa að láta mann lenda í svona rugli, verið var að dæla í mig fullt af vökva og hann greinilega streymdi bara beint í gegn. Ansk. að maður þurfi að þola svona rugl, ég hringdi á hjúkrunarkonuna og gerði þeim skiljanlegt að ég væri meira en lítið óánægð þetta væri bara ekki ásættanlegt, þær brugðust strax við og að færðu mig í þurrt. Það mátti samt eiginlega ekkert hreyfa mig þannig að þetta varð ábyggilega talsvert erfitt fyrir þær. Smá saman breyttist reiðin í geðshræringu sem ég réð bara allsekkert við og áður en ég vissi af var ég farin að leka að ofan líka. Svona, svona sagði hjúkkan og strauk mér, ekki þetta ekki þetta, þá færðu bara hausverk og það er svo slæmt, þetta er ekkert vinan, þetta kemur fyrir alla sem koma hingað. Ég harkaði af mér alveg yfirkomin af þessum asnalegu aðstæðum sem ég var enn einu sinni komin í. Skil ekki afhverju fólk er ekki varað við eða allavega eitthvað sett undir það til að það blotni ekki upp á herðar. Skil ekki neitt í þessu fólki sem stjórnar þessu. Sem betur fer kom Árni fljótlega, hann hafði reyndar lent í því að fá ekki Tuk tuk bíl þar sem bílstjórnarnir voru í verkfalli, en svo reddaði honum einn gamall verkfallsbrjótur. Eftir klukkutíma eða svo kíkti tennisþjálfarinn inn, þessi sem er í dag framkvæmdastjóri yfir sjúkrahúsinu. Þarna var rétti maðurinn til að skamma ályktaði ég, en þegar á hólminn var komið gat ég það ekki, var bara einfaldlega ekki til þess stemmd og ákvað að geyma þetta til betri tíma. Um 6 fengum við að fara yfir á hjúkrunarheimilið. Mér leið líkamlega vel var bara ótrúlega þreytt, en hafði engann höfuðverk. Það var bara gott að komast inn á herbergi og upp í rúm, öðru hvoru horfði ég á tærnar á mér og sendi þeim skipun, en hún komst ekki á leiðarenda því ekki varð ég vör við neina hreyfingu, kannski það verði næstu daga. Kannski eyðilagði ég allt með þessu dramakasti í dag, læknarnir hafa lagt ríka áherslu á að við eigum að reyna að vera vel stemmd til að hafa stofnfrumurnar glaðar, sem í sjálfu sér er kannski alveg rökrétt, þeir ættu að sama skapi að sjá til þess að svona uppákomur setji ekki sjúklingana þá úr jafnvægi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.