Þráður fortíðar til framtíðar - opin hönnunarsamkeppni

Arndís Bergsdóttir, Anna Gunnarsdóttir, Ester Stefánsdóttir, Margrét Lindquist, Dóróthea Jónsdóttir og

Ekki þarf að fjölyrða um vinsældir íslensku ullarinnar síðustu misseri. Margir eru að gera skemmtilega hluti úr þessum ódýra og fallega efniviði og á það bæði við um hinn almenna leikmann og sprenglærða listamenn og hönnuði.

Ester Stefánsdóttur, stjórnanda hönnunarsamkeppninnar Þráður fortíðar til framtíðar, fannst því mikilvægt að skapa vettvang þar sem safnað er saman öllu því besta sem verið er að hanna úr íslensku ullinni og veita þeim viðurkenningu sem fara þar fremstir í flokki.

Til liðs við sig við framkvæmd samkeppninnar hefur hún fengið þær Dórótheu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, Önnu Gunnarsdóttur listakonu, Margréti Lindquist sem nýverið vann evrópsk gullverðlaun fyrir grafíska hönnun, Arndísi Bergsdóttur hönnuð hrútahúfunnar og Bryndísi Símonardóttur fagurkera. 

Styrktaraðilar samkeppninnar eru Landssamtök sauðfjárbænda, Ístex hf. og Glófi ehf. Keppt verður í tveimur flokkum, þ.e. flokknum fatnaður og opnum flokki sem  hvers kyns fylgihlutir, nytjahlutir, list og skrautmundir tilheyra. Fjöldi fyrirspurna hafa borist og er mikill áhugi fyrir samkeppninni. Skilafrestur á fullunnum verkum auðkenndum með dulnefni er 30. júní n.k.

Sýning á 20 bestu verkunum úr hvorum flokki verður á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit dagana 7.-10. ágúst nk.
Dómnefnd, skipuð Védísi Jónsdóttur f.h. Ístex h.f., Loga A. Guðjónssyni f.h. Glófa ehf., Birgi Arasyni f.h. Félags sauðfjárbænda í Eyjafirði, Sveinu Björk Jóhannesdóttur textílhönnuði og Jenný Karlsdóttur útgefanda Munsturs og menningar, tilnefnir 5 verk til verðlauna úr hvorum flokki og verða þau kynnt í fjölmiðlum hálfum mánuði fyrir verðlaunaafhendinguna.

Úrslit samkeppninnar verða tilkynnt á Handverkshátiðinni í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 8. ágúst. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir 1. sæti í hvorum flokki. Þeir aðilar sem eiga verk tilnefnd til verðlauna fá glaðning frá Ístex og Glófa en auk þess áskilur Glófi sér rétt til að gera samning um framleiðslu á einu eða fleiri verkum. Ístex áskilur sér einnig rétt til að gera samning um birtingu á uppskrift af einu eða fleiri verkum. 
Nú eru allir sem eru með hugmyndir af skemmtilegri hönnun þar sem ull er í aðalhlutverki hvattir til að senda verk sín inn í samkeppnina.

Það er von framkvæmdaraðilanna að vönduð sýning verði til sem hægt er að senda víðar bæði innanlands jafnt sem utan og jafnvel geti hafist framleiðsla á einhverju af innsendum verkum.  Hver veit nema þessi samkeppni verið eitt skref í leið þjóðarinnar út úr efnahagskreppunni og landvættunum verði skipt út fyrir íslensku sauðkindina, hönnuð, sníðaskæri og prjóna!

Allar nánari upplýsingar varðandi samkeppnina og leikreglurnar er að finna á www.handverkshatid.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir