The Wild North hlýtur norræna styrki

Í ár er fyrsta verkefnisár alþjóðlega samstarfsverkefnisins The Wild North eða Hins villta norðurs, en undirbúningur þess hefur staðið yfir síðan í byrjun árs 2007. Undanfarna mánuði hefur verið unnið ötullega að fjármögnun verkefnisins, bæði hér heima og erlendis og er sú vinna nú að bera árangur því nýverið tilkynntu bæði NATA (North Atlantic Tourism Association) og NORA (Norræna Atlantsnefndin) um styrki til verkefnisins.

Samtals hljóða styrkirnir upp á 450.000 danskar krónur eða 10.820.000 íslenskar. NATA veitti 100.000 DKK til ferðakostnaðar vegna sameiginlegra funda- og námskeiðshalda í Færeyjum í október í ár, en þar þátttökuaðilum á verkefnissvæðinu boðið upp á námskeið í rekstri sjálfbærra ferðaþjónustufyrirtækja. NORA veitti 350.000 til þriggja námskeiða á verkefnistímanum (2009 - 2011), en auk fyrrgreinds námskeiðs verða haldin námskeið í Leiðsögn um svæði villtra dýra (2010) og Markaðssetningu á veraldarvefnum (2011).

Að auki hefur Vaxtarsamningur Norðurlands vestra veitt 3.000.000 kr styrk til þátttakenda á Norðvesturlandi árið 2009 og Ferðamálastofa 500.000 króna styrk til uppsetningu upplýsingaskilta á áfangastöðum verkefnisins víða um land (Vatnsnes, Hornstrandir, Skagaströnd og Húsavík).

Sumarið 2009 vinnur Helgi Guðjónsson líffræðinemi við atferlisrannsóknir á selum á Illugastöðum í tengslum við verkefnið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir