Þakplötur fuku í óveðri síðustu daga í Skagafirði
Það hefur blásið hressilega á landinu síðustu daga enda djúpar lægðir vaðið yfir hauður og haf. Þrátt fyrir það voru útköll björgunarsveita á Norðurlandi vestra í lágmarki en á Skagaströnd slitnaði einn bátur upp en hékk á einum enda þegar að var komið og á Fremri-Kotum í Norðurárdal fauk gafl upp og hurðir af bragga á laugardaginn sem Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð sinnti. Þar voru þakplötur einnig festar og þær sem höfðu losnað tryggðar niður.
Yfir tuttugu bárujárnsplötur fuku af gamla fjósinu á Hólum aðfararnótt mánudags og dreifðust víða, biskupagarð, bílastæði og ein í kirkjugarðinn, skrifar Broddi Freyr Hansen, starfsmaður Háskólans á Hólum, á Facebook-síðu sína. „Fundum nokkrar liggjandi lausar á fjósþakinu og nokkrar að losna,“ útskýrir Broddi.
„Hér urðu laufvindarnir heldur snarpir þessa nóttina. Gamla hestamiðstöðin lét á sjá og íbúðarhús varð fyrir aðkasti. 4 hestar voru fegnir að komast út og hverfa út í nóttina. Þeir hafa það fínt núna,“ skrifar Ólafur Sigurgeirsson, samstarfsmaður Brodda Freys, á sína Facebook-síðu. Hestamiðstöðin sú arna er staðsett á Kálfsstöðum og er að sögn Ólafs gömul hús.
„Það var feiknalega hvasst í fjallabylgjunum, ekki stætt og grjót og drulla á flugi. Líklega hefur vindhraðinn farið vel yfir 50m/sek. þegar verst lét,“ sagði Ólafur við Feyki. Þá fréttist af gámi sem fauk á hliðina á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki og kerrur ultu á Nöfum.
Engin lognmolla er í kortunum næstu daga því Veðurstofan spáir sunnan og suðvestan 8-15 m/s, hvassast með suður- og vesturströndinni í dag. Víða él, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 5 stig, en kólnar í kvöld. Suðlæg átt 8-13 og éljagangur á morgun, en að mestu bjart norðaustan til. Hiti um og undir frostmarki
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Vestlæg átt 5-13 m/s og él, en bjart norðaustan til. Hiti um eða undir frostmarki.
Á föstudag:
Vestlæg eða breytileg átt 5-13 og víða dálítil él, en yfirleitt bjart suðaustan til. Frost 0 til 12 stig, kaldast inn til landsins.
Á laugardag:
Breytileg átt 3-8 og sums staðar lítilsháttar él. Frost um mest allt land. Vaxandi sunnanátt með snjókomu eða slyddu og hlýnandi veðri sunnan- og vestanlands seinnipartinn.
Á sunnudag:
Sunnan hvassviðri eða stormur með rigningu og hiti 5 til 11 stig en suðvestanátt með éljum og kólnar um kvöldið. Lengst af þurrt norðaustanlands.
Á mánudag:
Útlit fyrir minnkandi vestlæga átt með éljum og kólnandi veðri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.