Það er löngu búið að sanna hver er besta plata allra tíma / SÉRA FJÖLNIR
Séra Fjölnir Ásbjörnsson er prestur í Holti í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Hann er fæddur árið 1973, alinn upp á Króknum frá 8 ára aldrei og segist skilgreina sig sem Króksara þegar spurt er eftir uppruna. Hljóðfærið hans Fjölnis er Yamaha BB1600 bassi sem var til sölu í Radíólínunni fyrir rúmum 20 árum en kom óvænt í hans hendur fyrir nokkrum árum og hefur ekki farið úr þeim síðan.
Helstu tónlistarafrek: Ég er nú að vona að helstu afrekin séu enn framundan. Ég hef samið nokkur lög á undanförnum árum og er að reyna að koma þeim á framfæri, þetta tekur allt tíma. Ég hef líka fengið ágæta aðstoð frá góðum tónlistarmönnum þannig að það er aldrei að vita nema folk fái að heyra þetta einhvertíman bráðlega (allavegana á facebook).
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég verð að segja nýrómantík níunda áratugarins, hárið og fötin voru furðuleg en tónlistin er ennþá ótrúlega skemmtileg. Ég hef reyndar líka verið veikur fyrir hippatímanum og þá sérstaklega Doors. Árið 2001 vitjaði ég grafar Jim Morrison í París
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég rakst á hljómsveit um daginn sem heitir Bright Eyes sem mér sýnist vera góð. Ég bendi á lagið At the Bottom of Everything ef einhver er á youtube.
Á hvers konar tónlist var hlustað á þínu heimili? Geirmund og Hallbjörn.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var vinylplata með Elvis að syngja jólalög. Ég sakna vinylsins mikið
Hvaða græjur varstu þá með? Úff! Græjur bernskunnar voru svo slappar að ég held að ég hafi ekki heyrt bassa í lögum fyrr en ég var kominn á unglingsár.
Wham! eða Duran? Ég studdi Duran af heilum hug og geri enn, ég er samt orðinn tilbúinn að viðurkenna að þeir Wham-drengir hafi verið ögn skárri en við Duran-menn vildum viðurkenna í denn
Hvað syngurðu í sturtu? Way We Were með Barbra Streisand (eins og í óborganlegu atriði í Naked Gun)
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Get into the Groove myndi koma partíinu í gang
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sunday Morning Coming Down með Johnny Cash er mesta sunnudagslag allra tíma
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? AC/DC kæmi sterklega til greina. Mér sýnist að mesta stuðið sé á tónleikum í Japan og ég myndi trúlega taka Tjörva Berndsen með, við fórum saman í rokkferð á Akranes um árið til að sjá Black Sabbath, það myndi hafa verið 1992.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig dreymdi reyndar einu sinni að ég væri söngvarinn í Motley Crue en ég var bara feginn þegar ég vaknaði vegna þess að ég hef aldrei fílað þá neitt sérlega vel.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þessi spurning er óþörf, það er löngu búið að sanna að Led Zeppelin IV er besta plata allra tíma
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.