Syngur ítalskar aríur í sturtu / ÁSDÍS GUÐMUNDS
Ásdís Guðmundsdóttir er Króksari, fædd á Ísafirði á þeim tíma sem Bítlarnir slógu í gegn og ólst þar upp. Ásdís spilar ekki á neitt hljóðfæri en syngur við hin ýmsu tækifæri.
Helstu tónlistarafrek: Þegar ég og Jóna Fanney mæmuðum 5 – 7 – 0 – 5 í gamla daga og dönsuðum meira að segja með. Það verður lengi í minnum haft.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er voða lítið fyrir að setja tónlist í kassa og tímabil þannig að ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Held samt að það hefði verið gaman að vera til þegar djassinn og blúsinn var að komast á legg í Bandaríkjunum, þessar tónlistarstefnur hafa haft svo mikil áhrif á alla tónlist.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Minn tónlistarsmekkur er afar óreiðu- og jaðarkenndur en þessa dagana er ég að hlusta á margvíslega tónlist frá Suður-Ameríku, td. Mexícó og Kúbu. Ég var svo heppin að komast á tónleika í Mexícó nýlega með Lilu Downs sem er ein af mínum uppáhaldssöngkonum. Einnig sperrast eyrun upp ef ég heyri tónlist frá framandi menningarheimum eins og Tyrklandi eða Balkan skaganum, nefna má í þeim efnum Mercan Dede frá Tyrklandi, Balkan Beat box og búlgörsk þjóðlög sem ég er nýbúin að uppgötva. Svo er tangó og flamenco einnig í uppáhaldi, í tango fer fremstur Piazolla og flamenco snillingurinn Diego el Cigala frá Spáni blandar saman tango og flamenco.
Á hvers konar tónlist var hlustað á þínu heimili? Ég man að mamma átti plötur (eins og það hét þá, þær voru hringlóttar og úr vinyl) með gömlu meisturunum sem búið var að poppa upp, með gítar, trommum og bassa. Þetta var iðulega sett á fóninn (sem var svona tæki með nál til að spila plötuna) þegar tiltekt var í gangi, nú eða þegar var verið að breyta (öllu snúið við). Þá hljómaði Beethoven og maður dansaði með og lífið varð einhvern veginn allt auðveldara.
Hver var fyrsta platan/diskur-inn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Óopinbera svarið væri Top of the Pops en hinsvegar væri miklu meira töff að segja Pink Floyd, David Bowie, Nina Hagen eða Supertramp.
Hvaða græjur varstu þá með? Kenwood magnara og plötu-spilara, keypta fyrir fermingar-peningana en græjur þessar entust í mörg ár.
Wham! eða Duran? Ha? Hvað er nú það? Held ég hafi verið sofandi á þessu tímabili og gleymt að hlusta.
Hvað syngurðu í sturtu? Ítalskar aríur með stæl.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það væri eitthvað frá Kúbu, til dæmis væri alveg hægt að dilla sér í salsa takti við tónlist félaganna í Buena Vista Social Club.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þá er tilvalið að hlusta á eitthvað róandi eins og Deva Premal eða Bliss, tilvalin slökunartónlist. Um þessar mundir væri nettur jóladjass með Diana Krall líka vel við hæfi.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi fara á tónleika með Earth, Wind and Fire og taka Sóley vinkonu með! Ekki spurning! Það mætti alveg vera í New York mín vegna!
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur svo sem ekkert dreymt um það en dettur í hug dívur eins og Ella Fitzgerald eða Aretha Franklin, báðar stórkostlegar söngkonur.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þetta er ein af eilífðarspurningunum sem ég get bara ekki svarað! Það er svo mikið til af fallegri tónlist og ekki réttlátt að segja að eitthvað eitt sé betra en annað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.