Svekkjandi silfurjafntefli á Króknum
Meistaraflokkur kvenna Tindastóls lék sinn síðasta leik þetta tímabilið í 2. deild Íslandsmótsins í fótbolta en um hreinan úrslitaleik var að ræða gegn Augnabliki. Ekkert nema sigur dugði Stólunum meðan jafntefli nægði stelpunum í Augnabliki til að krækja í deildarbikarinn sem þær og gerðu. 1-1 og bikarinn suður.
Það var mikil stemning hjá Stólum og áhorfendum sem fjölmenntu á völlinn, fyrirtaks veður, gott gervigras og ágætis áhorfendabekkir, sem búið var að koma fyrir. Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti og ætluðu greinilega sigur í þessum leik, enda ekki annað í boði eins og áður segir. Náðu þær strax að ógna gestunum, léku vel, börðust af hörku og uppskáru mark strax á 9. mínútu er Murielle Tiernan laumaði boltanum fram hjá Ana Luciu N. Dos Santos, eða Ditu fv. markmanni Tindastóls. Þrátt fyrir að Dita fengi á sig þetta mark átti hún sannarlega eftir að bjarga sínu liði frá tapi með góðri frammistöðu.
Augnablik er hörkulið og átti sín færi þó ekki væru þau mörg né öll hættuleg en eitt dauðafæri varði Margrét Ósk Borgþórsdóttir, markmaður Stólanna, einn á móti einum en þar skall hurð nærri hælum. Margrét stóð sig gríðarlega vel í markinu og er klárlega framtíðarleikmaður þrátt fyrir að aðeins eru tvö ár síðan hún byrjaði að æfa fótbolta.
Baráttan var ekki síðri í seinni hálfleik, alltaf líklegra að Stólar bættu við sig marki en þvert á allar væntingar jafnaði Bergþóra Sól Ásmundsdóttir með dúndurskoti utan vítateigs sem Margrét varði en náði ekki að halda boltanum sem aulaðist í netið. Ekkert við því að gera og svekkjandi fyrir þennan frábæra markvörð að sjá á eftir boltanum í netið.
Stólarnir gáfust ekki upp, héldu áfram að sækja og sköpuðu sér mörg góð færi, þ.á.m. 3-4 dauðafæri sem gestirnir björguðu naumlega á línu. Einnig komst Murr ein á móti markmanni en náði ekki að setja í netið.
Niðurstaðan svekkjandi silfurjafntefli og Augnablik deildarmeistari með betra markahlutfall en Stólar. Bæði lið enduðu með 34 stig Augnablik með markatöluna 49:10 en Tindastóll 49:17. Samt sem áður frábær árangur hjá Stólum, liðið byggt upp á heimastelpum, aðeins einn aðfenginn leikmaður. Þess má svo geta að liðinu var spáð 5. sæti fyrir tímabilið en gerði gott betur þar sem ellefu stig er í Gróttu sem situr í 3. sæti. Þjálfarar liðsins, Jón Stefán Jónsson og Guðni Einarsson, eiga einnig hrós skilið fyrir þeirra framlag og vinnu með liðið.
Feykir óskar báðum liðum til hamingju með árangurinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.