Sundlaugin á Hofsósi slær í gegn

 Nærri 2100 manns sóttu sundlaugina á Hofsósi í apríl , fyrsta heila mánuðinn sem hún var opin, þar af um 630 börn. Vinsældir laugarinnar hafa farið fram úr björtustu vonum og kemur fólk allsstaðar að úr Skagafirði og nágrannabyggðum til að synda og leika í lauginni.

Alls var laugin opin í 29 daga í apríl eða  í 230 klukkustundir. Það gerir nærri 10 gesti á hverja klukkustund, sem hlýtur að teljast gott þegar litið er til mannfjölda á Hofsósi og nágrennis. Greinilegt er að foreldrar barna yngri en 6 ára eru mjög duglegir að koma með þau í sund, enda er laugin 33 gráðu heit og öll aðstaða til fyrirmyndar. 137 þeirra busluðu í lauginni í síðasta mánuði. Þá má og leiða  að því líkum að flest allir eldri borgarar á Hofsósi hafi stungið sér til sunds þar , því ekki færri en 52 þeirra komu í sund í nýju laugina í apríl.
Starfsfólk laugarinnar hefur fengið mikið hrós fyrir einstaka þjónustulund og þau segjast hlakka til sumarsins. Íþróttafulltrúi sem jafnframt er forstöðumaður sundlaugarinnar á Hofsósi ( og á Sauðárkróki einnig )  hefur í samvinnu við starfsmenn fundið leið í rekstrinum til þess að hafa laugina á Hofsósi opna í sumar frá kl. 9.00 -21.00 virka daga og  er mikil ánægja með það.

Heildarheimsóknir í Sundlaug Sauðárkróks þennan sama mánuð voru 2133 og opið var þar í 315 klukkutíma þá 29 daga sem hún var opin. Sú laug er vinsælust meðal eldri borgara  sem eru afar duglegir að sækja laugina, sérstaklega á morgnana. Heimsóknum barna í þá laug hefur fjölgað verulega með tilkomu Þjónustukortanna og fullorðnir fylgja þá gjarnan með einnig. Sundlaug Sauðárkróks er opin virka daga frá kl. 6.50 - 21.00

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir