Stjórnmál, nei takk !
Nú líður senn að sveitarstjórnarkosningum og vinna að framboðsmálum er að komast á fullt skrið hjá öllum flokkum. Fyrir mörg okkar er þetta skemmtilegur tími, þar sem í nægu er að snúast og samskipti við fólk og almenn skoðanaskipti auðga lífsandann. Hinu er ekki að leyna, að viðhorf hins almenna kjósanda er að mörgu leyti breytt frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Umrótið í íslensku samfélagi og uppljóstranir um fjármálamisferli og siðferðisbresti undanfarin misseri hafa verið með þeim hætti, að venjulegt fólk fyllist andúð og reiði. Á daginn kemur að stjórnmálamenn og stjórnmálflokkar hafa brugðist og þeir hinir sömu oft verið þáttakendur í þeim leik, sem mótaður var af græðgi og spillingu. Við sem höfum starfað í grasrót stjórnmálflokkanna fyllumst vonbrigði, því margt af því fólki sem treyst var til góðra verka hefur brugðist okkar væntingum. Hinn almenni kjósandi fyllist neikvæðni gagnvart stjórnmálum og umræðan snýst ekki lengur um stefnur flokka, heldur frekar hvaða einstaklingum er helst treystandi til að leiða þjóðina út úr yfirstandandi efnahagsþrengingum.
Því má með réttu halda fram, að framboð undir merkjum stjórnmálaflokka til sveitarstjórnarkosninga sé tímaskekkja við þessar kringumstæður. Málefni kosninganna eru fyrst og fremst þau atriði sem snúa að nærumhverfi íbúanna í okkar samfélagi. Þau snúast að miklu leyti um þá þjónustu, sem íbúum sveitarfélagsins er veitt úr okkar sameiginlega sjóði. Og þá einnig hverjum við trúum best til þess að vera vörslumenn þeirra fjármuna sem við leggjum fram til uppbyggingar, rekstrar og samneyslu í okkar sveitarfélagi.
Að bjóða fram undir merkjum stjórnmálaflokka í þessum kosningum er því í þessu ljósi frekar spurning um skipulag og liðsheildir, bæði í kosningabarátunni sjálfri og í verkum okkar að afloknum kosningum. Því verður þó aldrei afneitað, að ákveðnar grundvallarskoðanir okkar sem skipa lista Sjálfstæðisflokksins munu ávallt ráða því, að við skipum okkur saman í öfluga liðsheild. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins erum breiður hópur úr ólíku umhverfi í okkar samfélagi, hópur sem vill vinna með fólki og fyrir fólk. Við setjum okkur það markmið að þekkja í þaula þarfir atvinnulífs og íbúa sveitarfélagsins. Þannig getum við mætt þeim þörfum sem þarf að uppfylla til að efla og bæta okkar samfélag. Með ykkar stuðningi og samvinnu mun okkur takast að yfirstíga erfiða tíma og byggja upp betra samfélag, reynslunni ríkari.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.