Stjórnir heilbrigðisstofnana endurreistar

Skipulagi heilbrigðisstofnana verður breytt  til að greiða fyrir aðkomu sveitarstjórna og starfsfólks á hverju þjónustusvæði að stjórnum þeirra, fái þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna Vinstri grænna brautargengi.  Ásmundur Einar Daðason er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Lengi vel tilnefndu sveitarstjórnir á þjónustusvæði þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa; starfsmenn tilnefndu einn og var sá fimmti skipaður af heilbrigðisráðherra án tilnefningar. Árið 2003 var lögum um heilbrigðisþjónustu breytt á þann veg að forstöðumaður stofnunarinnar hefði einn umsjón með rekstri þeirra en stjórnirnar voru lagðar niður. Þær höfðu þó aðeins verið ráðgefandi um skipulag og þjónustu stofnananna auk þess að hafa eftirlit með rekstri þeirra.

Þörf á auknu samráði við heimamenn

Með frumvarpi nú er heilbrigðisráðherra falið að undirbúa og leggja fyrir næsta þing lagafrumvarp sem endurreisir stjórnir heilbrigðisstofnana í svipuðum anda og fyrr. Enda þótt stjórnirnar hafi ekki haft ákvörðunarvald um daglegan rekstur er mikilvægt að í gegnum þær sé samráð tryggt við samfélagið og  byggt á reynslu vinnustaðarins á hverjum stað.

Með því að auka á ný íbúa- og atvinnulýðræði á þessu sviði má ná fram ýmsum mikilvægum markmiðum:

•          Þannig má samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnana og áherslur í störfum sveitarfélaganna, t.d. í átaks- og kynningarverkefnum,  m.a.  í skólum. Það er ekki síst veigamikið á tímum þegar huga þarf sérstaklega að heilsu barna og áhrifum kreppunnar á líðan þeirra.

•          Eitt af áherslumálum hjá sveitarstjórnum og heilbrigðisstofnunum um allt land hefur verið að standa vörð um heilsugæsluna. Með þessum lagabreytingum væri mikilvægt skref stigið í að styrkja stöðu heilsugæslunnar, m.a. sem fyrsta viðkomustaður sjúklinga, og auka nærþjónustu innan heilbrigðiskerfisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir