Steingrímur skerðir búvörusamninga í þrjú ár
Það varð niðurstaðan hjá Steingrími J. Sigfússyni landbúnaðarráðherra að skerða búvörusamningana í þrjú ár. Hann og flokkur hans gerðu sér upp andstöðu við það á síðasta hausti að búvörusamningar voru ekki verðbættir að fullu.
Þau höfðu uppi stór orð um það, Steingrímur J., Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir og fleiri úr þeim flokki. Og ég veit um fólk sem hélt að það væri einhver meining á bak við þessi orð.
Ég vissi það þá að svo var ekki. Þetta var bara orðaglamur. Nú hafa þau sjálf staðfest að á bak við hávaðann á síðata hausti var ekki nokkur alvara. Það vantaði ekki að í þeim glumdi hátt þegar þau höfðu yfir gagnrýnina sína. En við vitum jú að hæst bylur í tómri tunnu.
Skerðing vísitölubóta á þessu ári stafaði af þeim hrikalegu efnahagsvandræðum sem við stöndum nú frammi fyrir. Sá veruleiki blasti við stjórnvöldum – líkt og öllum öðrum – og kom fram í fjárlögum.
Skerðing á vísitölubótum var sams konar og á verðbótum almannatrygginga, svo sem vegna framlaga til aldraðra og öryrkja. Það var því reynt að fara með mikilli gætni þegar kom að búvörusamningunum, þó ég vissi vel að innan Samfylkingar stóð ríkur vilji til miklu meiri skerðingar.
Steingrímur J. var bara búinn að vera landbúnaðarráðherra í einn mánuð þegar hann tilkynnti einhliða að hann ætlaði að framlengja þessa skerðingu um eitt ár til viðbótar. Hann tilkynnti það sem sé; reyndi ekki samninga, heldur var þetta tilskipun af hans hálfu.
Nú eru sem betur fer komnir á samningar á milli ríkisvalds og Bændasamtakanna um fyrirkomulag búvörusamninganna. Þeir samningar eru á áþekkum nótum og ég hafði rætt um við forystumenn Bændasmtakanna nú í vetur. Þeir fela í sér skerðingu, en ákvörðun um fullar bætur er líður á tímabilið. Þeir leiða til framlengingar á búvörusamningunum um tvö ár. Þetta er eðlileg niðurstaða sem endurspeglar þá efnahagslegu stöðu sem við erum stödd í.
Með þessum samningum kristallast athyglisverður pólitískur veruleiki fyrir stjórnarflokkana, blessaða.
Samfylkingin er búin að axla ábyrgð á þeim búvörusamningum sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gerðu við bændur á sinni tíð – og framlengir þá um tvö ár. Og má nú segja að öðruvísi mér áður brá. Og Steingrímur J og nótar hans í Vinstri grænum hafa beitt sér fyrir því að skerðing á vísitölubótum búvörusamninga nái yfir þriggja ára tímabil; sömu kallarnir og gagnrýndu ákvörðun um eins árs skerðingu á vísitölubótum fyrir fjórum mánuðum.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.