Snjóflóðahætta á Hofsósi liðin hjá

Snjótroðari og grafa brytja niður snjóhengjuna. Mynd:FE
Snjótroðari og grafa brytja niður snjóhengjuna. Mynd:FE

Ekki er lengur hætta á snjóflóði við Vesturfarasetrið á Hofsósi eftir að snjóhengjunni ofan við setrið var mokað í burtu með stórvirkum vinnuvélum. Í norðanhvassviðrinu sem geysaði í síðustu viku safnaðist mikill snjór í brekkuna ofan við Vesturfarasetrið. Lokað var fyrir umferð um svæðið eftir að stór sprunga, um 50 metra löng og fimm til sex metra djúp, kom í ljós sl. þriðjudagskvöld. Óttast var að ef hengjan færi af stað fylgdi snjórinn aftan við sprunguna á eftir og hefði þá valdið miklu tjóni.

Í gærdag var hafist handa við að moka hengjunni í burtu eftir að sérfræðingar frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar höfðu metið stöðuna. Var verkinu lokið seint í gærkvöldi. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í morgun segir Ingvar Gýgjar Sigurðsson, tæknifræðingur veitu- og framkvæmdasviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, að hengjan hafi verið nöguð niður af snjótroðara frá skíðasvæðinu Tindastóli. Aðgerðirnar gengu vonum framar, alveg eins og í sögu, að sögn Ingvars. „Það er allt farið burtu, það var farið af stað með það fyrir augum að byrja og klára það í gær. Það voru allir komnir til síns heima upp úr kl 23 í gærkvöldi. Það er ekki að safnast snjór þarna lengur. Eins og veðurspáin er þá lítur þetta bara vel út. Það var gengið þannig frá því að það er minni hætta á að þetta gerist“ sagði Ingvar í samtali við RÚV.

Meðfylgjandi myndir tóku Ásdís Garðarsdóttir og blaðamaður Feykis í gær.

Sjá einnig: Hafnarsvæðið á Hofsósi lokað vegna snjóflóðahættu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir