Sjö nýsköpunarteymi af Norðurlandi hafa verið valin til þátttöku í Startup Stormi

Sjö nýsköpunarteymi af Norðurlandi hafa verið valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup Stormi sem hófst 3. október síðastliðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SSNV.

Þetta er í fjórða sinn sem Startup Stormur er haldinn fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Norðurlandi. Hraðallinn stendur yfir í sjö vikur en hann er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi. Dagskráin er hönnuð með þarfir þátttakenda í huga en á þessu sjö vikna tímabili munu teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur og stjórnendur fyrirtækja frá öllu landinu, sitja vinnustofur og mynda sterkt tengslanet sín á milli.

Hraðallinn er frjór vettvangur fyrir teymin til að þróa hugmyndir sínar og vörur, læra um rekstur fyrirtækja, markaðssetningu, undirbúa fjármögnun og margt fleira. Markmiðið er að hjálpa teymunum að vaxa hratt á þessum sjö vikum og á þeirra forsendum.

Þetta eru allt mjög spennandi verkefni og verður gaman að fylgjast með þeim vaxa í hraðlinum. Hraðlinum lýkur 14. nóvember með lokaviðburði.

Þátttakendur í Startup Stormi 2024 eru:

Akur Organic - Nýtt framleiðslufyrirtæki í lífrænni ræktun í Langanesbyggð.

Syðra Holt – Fjölmenningarlegt lífrænt býli sem starfar á sviði landbúnaðar, búfjárræktar, matvælaframleiðslu og lista, með það að markmiði að halda áfram að vaxa og þróa verkefnið með opnun kaffihúss (veitingahús).

Hret Víngerð – Hret víngerð þróar létt og freyðandi ávaxtavín sem bruggað er á Norðurlandi vestra úr rabarbörum af svæðinu og selt heima- og ferðamönnum um landallt.

Skynró – Hannar fatnað fyrir einstaklinga með skynúrvinnsluvanda. Flíkurnar munu sinna ólíkum skynþörfum einstaklinga með aukahlutum sem eru skynörvandi, veita ró og öryggi án þess að vera áberandi.

Kayakar – Kajakleiga þar sem þú ferð á eigin vegum. Einnig er þetta hjólaleiga með skipulagðar ferðir og matarupplifun. Fyrirtæki í stöðugri vöruþróun í afþreyingarferðamennsku.

Listakot Dóru – Söguganga í myrkri undir orðinu myrkurgæði. Það er upplifun að vera í algjöru myrkri og hafa landslagið í skugga.

Semey – Listamannadvöl á Ólafsfirði, útbúa aðstöðu og umgjörð fyrir listamenn til að iðka list og efla skapandi greinar í Fjallabyggð.

 Startup Stormur er samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir