Sjávarútvegsráðherra veitir þeim sérréttindi sem hann ásakar um óábyrgar veiðar
Hún er merkilega þvælin, varnargrein Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra, þar sem hann reynir að útskýra hvaða almannahagsmunir lágu að baki þeirri ákvörðun að mismuna landsmönnum gróflega við úthlutun á rétti til að veiða á makríl.
Í greininni margtyggur sjávarútvegsráðherra að alger óvissa ríki um dreifingu, magn og útbreiðslu makrílsins og sömuleiðis á hvaða tíma árs fiskurinn verðmæti heldur sig í landhelginni. Þrátt fyrir framangreint finnur ráðherra Vinstri grænna sig knúinn til þess að kvótasetja tegundina og úthluta þeim sérréttindum sem hann fullyrðir að hafi stundað eitthvað sem hann nefnir ólympískar veiðar. Það er mat græningjans Jóns Bjarnasonar að ólympísku veiðarnar séu bæði óábyrgar og óhagkvæmar en samt réttlætanlegar til að komast í einhverja samningsaðstöðu gagnvart öðrum þjóðum!
Ráðherra hlýtur því að byggja ákvörðun sína á að setja makrílinn í kvóta á einhverju allt öðru en fiskifræðilegum grunni . Það stingur óneitanlega í stúf að ráðherra græningja skuli vilja verðlauna þá með sérréttindum umfram aðra Íslendinga sem hann ásakar um að stunda óábyrgar veiðar.
Ráðherra sem væri að gæta almannahagsmuna hefði sett ríkari kröfur til jafnræðis og að sett væri ríkari vinnsluskylda á makrílinn þannig að sem hæst útflutningsverðmæti fengist fyrir veiðina.
Sigurjón Þórðarson
Formaður Frjálslynda flokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.