Síendurtekinn indjánasöngur á heimilinu / SARA RUT
Sara Rut Fannarsdóttir heitir ung og efnileg tónlistarkona frá Skagaströndinni góðu sem hefur gert garðinn frægan með hljómsveitinni Fúsaleg Helgi þar sem hún var harmonikkuleikari og söng en fyrr á þessu ári fluttist Sara til Hafnafjarðar. Helstu tónlistarafrek fyrir utan að spila í fyrrnefndri hljómsveit þá segist Sara eitt sinn hafa spilað fyrir biskupinn sjálfan. Þá hefur hún verið í lúðrasveit og spilað og sungið hér og þar.
Uppáhalds tónlistartímabil? Það er náttúrulega engin spurning, gullaldartímabilið frá sirka 1960-1980. Svo finnst mér tímabilið um sirka árið 1981-1983 þegar pönkið stóð sem hæst á Íslandi nokkuð áhugavert.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Fór á skemmtilegan djazz fyrirlestur um daginn og hef ekki stoppað að hlusta á Benny Goodman, Louis Armstrong, Nat King Cole, Billy Holiday og alla þá snillinga.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ekki annað að ræða en að hafa gamla góða rokkið og klassíska tóna frá metal heiminum. Svo man ég sterklega eftir Harry Belafonte í græjunum.
Hver var fyrsta platan/diskur-inn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Mig rámar í að ég hafi keypt kasettu af indjánum úti á Spáni þegar ég var 5 ára, sú kasetta var vel notuð og alltaf hljómaði síendurtekinn indjánasöngur á heimilinu í nokkur ár eftir á.
Hvaða græjur varstu þá með? Ég var með eitthvað eðal kassettu-tæki.
Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég raula alltaf gamlar íslenskar söngvísur og þjóðlög og skemmti mér konunglega við það. Hvergi betri staður en sturtan til þess að tralla lög á borð við Máninn fullur, Hættu að gráta hringaná, Veröld fláa sýnir sig og fleiri gullmola.
Wham! eða Duran? Auðvitað Wham! Wake Me Up Before You Go Go gefur þeim mörg mörg stig.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég held að smellir frá Queen, Led Zeppelin, Jefferson Airplane, Steppenwolf og Boney M yrðu fyrir valinu, æðisleg lög og maður getur ekki annað en dansað og sungið með.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Graham Nash, Simon and Garfunkel, Trúbrot og Enya yrðu í efstu sætunum myndi ég segja.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tæk-irðu með þér? Wacken Metal Festival í Þýskalandi hefur verið draumaferðin mín síðan ég var 15 ára. Ef ég myndi fara þangað, tæki ég elskulega systur mína með mér.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Einn af þeim er Gene Simmons söngvari og bassaleikari Kiss, af því hann var og er einn sá svalasti í bransanum, punktur.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Úff.. þetta er mjög erfið spurning. En ef ég þyrfti að velja þá held ég að ég myndi segja Led Zeppelin IV eða 4symbols eins og hún er líka kölluð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.