Ragnar Bjarnason í Sæluviku
Félag harmoniku unnenda í Skagafirði mun standa fyrir söng og skemmtidagskrá í Ljósheimum fimmtudagskvöldið 30. apríl en sérstakur gestur á skemmtuninni verður Ragnar Bjarnason.
Félag harmoniku unnenda í Skagafirði hélt þrenna tónleika í vetur er báru nafnið Tekið í belg og voru þeir haldnir í Ljósheimum, Löngumýri og á Hofsósi.
Þar voru á ferð fimm harmonikuleikarar, bræðurnir Jón og Stefán Gíslasynir, Aðalsteinn Ísfjörð, Jón Þorsteinn Reynisson, Tanja Mjöll Magnúsdóttir ásamt slagverksleikara, Kristjáni Þór Hansen. Kynnir var Gunnar Rögnvaldsson.
Sæluvika Skagfirðinga 2009 stendur yfir frá 26. apríl – 3. maí og mun félagið leggja til dagskrá í þá menningarviku. Á fimmtudagskvöldið 30. apríl kl. 20.30 verður söng og skemmtidagskrá í Ljósheimum með hinum landskunna stórsöngvara Ragnari Bjarnasyni. Hann kemur einn hingað norður en heimamenn munu sjá um undirleik hjá honum. Ragnar á margar gamansögur sem hann deilir með áhorfendum á milli laga. Hljómsveitir félagsins leika svo fyrir dansi fram eftir nóttu. Tekið í belg og dagskráin með Ragnari Bjarnasyni eru verkefni sem styrkt voru af Menningarráði SSNV.
Á aðalfundi Sambands íslenskra harmonikuunnenda árið 2006 var samþykkt að halda einn dag á ári í þágu harmonikunar sem nefnist Harmonikudagurinn. Hefur Félag harmonikkunnenda í Skagafirði alltaf tekið þátt í þessum degi með dagskrá á Mælifelli. Nú í ár ber daginn upp á 2. maí sem er laugardagur í Sæluviku og af því tilefni verður opið hús í Ljósheimum kl. 14 og þar boðið upp á fjölbreytta harmonikutónlist. Harmonikudagurinn er styrktur af Sparisjóði Skagafjarðar. Aðgangur er ókeypis en boðið verður upp á veitingar á vægu verði og eru allir velkomnir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.