Ræða við upphaf Sæluviku 2010
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Jesús talar um sorg og gleði við lærisveina sína í texta dagsins (Jóh. 16.16-23). Hann er að tala um dauða sinn og upprisu og segir þeim að hryggð þeirra muni snúast í fögnuð. Þessar andstæður sem við þekkjum öll og mótar líf okkar allra á einn eða annan hátt. Jesús er að tala um gleðina sem páskarnir vitna um, þrátt fyrir þá sorg sem dauði hans muni valda þessum vinum hans, sem höfðu fylgt honum umliðin ár.
Dagarnir eftir páska eru kallaðir gleðidagarnir á almanaki kirkjunnar. Það er gleðin vegna upprisunnar sem gefur þeim nafn. Og guðspjallstextinn sem hér var lesinn skýrir það. Við gleðjumst af því að Jesús lifir og er með okkur, er bróðir okkar í gleði og raun, í dagsins önn.
Sæluvikuna sem nú er að hefjast má einnig kalla gleðidaga, þó á annan hátt en í þeim biblíulega skilningi, sem hér hefur verið nefndur.
Í smásögu Indriða G. Þorsteinssonar frá 1951, sem nefnd er eftir sæluvikunni, kemur vel fram hvaða sess þessir dagar skipuðu í hugum fólksins. Það var eftirvænting og gleði í loftinu, dagamunur og tilbreyting.
Sveitafólkið streymdi til Sauðárkróks og húsfreyjurnar hér bökuðu jafnvel meira en fyrir jólin, því að þær vissu að mikið yrði um gesti á heimilum þeirra. Vinir og frændur sem komu í heimsókn og gistu jafnvel í nokkra daga.
Indriða tekst vel að leiða lesandann til þess samfélags sem hér var fyrir sextíu árum. Margt hefur breyst og samfélagið hér á margann hátt með öðru sniði en þá var. En vonir og þrár og draumar fólksins hafa ekki breyst svo mikið. Gleði þess og sorgir eru svipaðar nú og þá. Mannlegar tilfinningar sem skipta okkur miklu.
Það er varla hægt að segja að umliðnir dagar og vikur hafi verið gleðidagar í venjulegri merkingu þeirra orða. Hjá mörgum hafa dagarnir frá því að gosið í Eyjafjallajökli hófst fremur mótast af óöryggi og jafnvel örvæntingu. Hugur okkar er hjá þeim sem verst hafa orðið úti vegna eldgossins og ljóst er að það hefur nú þegar valdið miklum búsifjum í nágrenni eldstöðvanna.
Og gosið hefur raskað ferðum milljónum manna um heiminn. Það reyndi ég sjálfur í liðinni viku og það er undarleg tilfinning og alls ekki góð, þegar maður finnur að maður hefur ekki lengur stjórn á aðstæðum. Og veit ekki hvað framundan er, - hvenær maður kemst aftur heim.
Við erum erum minnt á smæð okkar í alheiminum. Minnt á það að við höfum ekki stjórn á öllum hlutum. Eins og sálmaskáldið spurði forðum: Hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?
Maður skilur betur hvað það þýddi að bíða byrjar. Menn voru háðir náttúruöflunum, og í nánum tengslum við þau og áttu allt sitt undir þeim. Á seinni árum hefur maðurinn talið sig vera orðinn sem mest óháður þessum öflum. Sérstaklega þó borgarbúinn, sem skynjar ekki eins vel þessi tengsl og þeir sem úti á landinu búa.
En stundum erum við minnt á það að við ráðum ekki öllu.
Maður sem var að fárast yfir því að flugi hans var frestað, var spurður að því hvort hann vildi fremur hætta lífi sínu og annarra, heldur en að sætta sig við það að þetta var eitthvað sem ekki var ráðið við og ekki var hægt að breyta. Það yrði að bíða byrs.
Við erum einnig orðin vön því að vera sífellt að mæla tímann og reikna út hvort við höfum tíma til þessa eða hins. Við erum svo háð tímanum í nútímaþjóðfélagi að okkur finnst annað jafnvel óþægilegt. En þannig hefur það ekki alltaf verið.
Indjáni einn sem fylgdist með háttarlagi hvítra manna sagði að guði sína bæru þeir á handleggjum sínum og átti þar við úrið, sem þeim var býsna oft starsýnt á. Hann gat ekki betur séð en að þetta litla tæki stjórnaði lífi þeirra, frá morgni til kvölds.
Og sennilega er margt til í því. Það er svo margt sem við njótum ekki vegna þess að við teljum okkur ekki hafa tíma til þess. Vegna þess að úrið rekur okkur áfram.
Þessar hugsanir komu upp í huga minn í lestinni frá Jótlandi til Kaupmannahafnar.
Það átti að mæta út á flugvöll um miðja nótt upp á von og óvon hvort hægt yrði að fljúga. Kannski hefðu þessar hugleiðingar breyst ef ég hefði ekki komist heim. Ef ég væri enn að bíða eftir flugi, teljandi mínútur, klukkustundir og daga. En stundum er best að slappa af eins og danir segja. Og stundum er ekki um annað að ræða.
Þó að þreytandi sé og taugatrekkjandi að komast ekki ferða sinna, þá er það ekki mikið miðað við það að standa í öskunni miðri með bú sitt og ból og vita ekki hvenær þetta fer að lagast.
Vonandi er forsetinn ekki sannspár. Hann spáði því að þetta væri einungis æfing miðað við það sem koma skal. Og þessi orð hans hafa valdið miklu uppnámi. Þó að gott sé að sýna eðlilegt raunsæi, þá er ég sammála þeim er segja, að betra sé að telja kjark í þjóð sína heldur en að auka á ótta og áhyggjur. Þannig skiptast á í lífi okkar áhyggjur og æðruleysi, sorg og gleði.
Jesús Kristur talar um þessar tilfinningar, því hann talar um það sem skiptir okkur máli. Um gleði okkar og sorgir. Hverfum um stund 60 ár til baka og gefum Indriða G. orðið í upphafi sæluviku. Hann segir svo frá:
„Og upp úr hádeginu fóru bílarnir að koma. Þeir komu eftir tröðum og hliðarvegum og óku út Skagfirðinga-braut. Fólkið stóð á pöllum vörubílanna og á aur-brettunum og skorðaði sig á bak við luktirnar á milli vélarhúss og aurhlífar. Bílarnir voru svo kvikir af fólki að hvergi sá í lófastórann blett á þeim…
Bílarnir stefndu út á Krók og sumir fóru tvær ferðir eða fleiri.
Krókurinn var í engu brábrugðinn öðrum þorpum. Lítil á rann í gegnum staðinn miðjan, en rétt hjá kirkjunni var brú yfir hana og háir kantar að henni. Og bílstjórar höfðu á orði að þarna mætti sem hæglegast aka út af án þess að nokkur fengi við því gert. Þeir sögðu það líka um Staðarbeygjuna. Þeim tókst stundum að velta bílum á jafnsléttu, þótt þeir teldu háa kanta og krappar beygjur með því hættulegasta.
Húsin voru flest úr timbri og stóðu svona hér og þar."
Þannig var nú lýsingin á upphafi sæluviku hér áður fyrr. Mér finnst reyndar að þessi saga sé næstum jafn klassísk og aðventa Gunnars Gunnarssonar, sem lesa ætti hvora um sig á viðeigandi tíma. Önnur er hetjusaga almúgamanns, þar sem verið er að kljást við náttúruöflin, hin er gamansaga, þó með tregablöndnu ívafi, þar sem fjallað er um tilfinningar fólks, karls og konu, þrár okkar og drauma. Og hvað er mikilvægara en það? Hvað er mikilvægara en gleði okkar og sorgir?
Í upphafi Sæluviku langar mig til þess að ljúka þessum orðum með því að vitna aftur í Indriða G. þar sem segir í sögunni Sæluviku:
„Þegar fólkið vaknaði á bæjunum mundi það að nú var dagamunur. Það fór að hugsa um þetta án þess að hafa orð á því hvert við annað. Og það hlakkaði til af því það var ekki oftar en einu sinni á ári að það gerði sér slíkan dagamun, og þess vegna komst hann aldrei upp í vana. Allir vissu að það yrði skemmtilegt á Króknum, og að það yrði dansað og sungið og að það myndu einnig verða leikssýningar. Og fólkið leit á dagatalið til að fullvissa sig einu sinni enn um að nú væri sæluvika.”
Í dag er Sæluvikan ekki eins mikil tilbreyting í lífi okkar og hún var áður fyrr, þegar minna var um að vera og dagamunurinn því mikill. Engu að síður er margt um að vera, margir hafa lagt hönd á plóginn og við skulum gefa okkur tíma til þess að njóta þess sem upp á er boðið og taka þátt í þeim atburðum.
Við skulum njóta gleðidaga.
Í Jesú nafni. Amen.
- - - -
Ræða sr. Gísla Gunnarssonar flutt við guðsþjónustu í Sauðárkrókskirkju í upphafi Sæluviku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.