Páskaísinn
Er ekki tilvalið að græja páskaísinn núna um helgina? Held ég þurfi allavega að gera það svo það verði nú einhver eftirréttur á páskadag heima hjá mér. Búið að vera pínu öðruvísi byrjun á þessu ári en árin 2021 og 2022 þegar allt lá niðri og maður hafði tíma til að gera allan fja.... Það verður allavega ekki gerð vorhreingerning heima hjá mér fyrir páskana þetta árið, það eitt veit ég. Set mér markmið að komast nokkuð heill út úr þessari törn því þriðja vaktin mín er að ná hæstu hæðum þessa dagana og gott að minna sig stundum á að muna að njóta en ekki þjóta.
PÁSKAÍS 1 - mynd og uppskrift frá gottimatinn.is
Toblerone og kókosbolluís
4 egg (aðskilin)
50 g púðursykur
30 g vanillusykur
350 ml rjómi frá Gott í matinn, þeyttur
6 litlar kókosbollur, skornar í tvennt
100 g Toblerone, saxað
Aðferð: Þeytið eggjarauður og sykur þar til létt og ljóst og bætið vanillusykri saman við í lokin. Hrærið þeyttum rjóma varlega saman við með sleif og bætið Toblerone saman við. Að lokum má stífþeyta eggjahvíturnar og bæta þeim varlega saman við rjómablönduna og setja kókosbollurnar saman við alveg í lokin. Hellið í ílangt kökuform sem búið er að plasta að innan með plastfilmu og frystið í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt. Takið ísinn úr forminu þegar það á að bera hann fram og skreytið með kókosbollum, jarðarberjum, söxuðu Toblerone og Tobleronesósu.
Súkkulaðisósa:
200 g Toblerone
100 ml rjómi frá Gott í matinn
Aðferð: Bræðið Toblerone og rjóma saman í potti þar til súkkulaðið er bráðið. Leyfið sósunni aðeins að þykkna og hitanum að rjúka úr og berið fram með ísnum.
PÁSKAÍS 2 - mynd og uppskrift frá eldhussogur.is
Toblerone-jólaís með hnetum og banönum
5 dl rjómi
5 eggjarauður + 1 msk. sykur
5 eggjahvítur + 1 msk. sykur
400 g heslihnetu- og
súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
200 g Toblerone
1 hvítur marengsbotn
1 banani
u.þ.b. 60 g heslihnetur
Aðferð: Þeytið rjómann. Stífþeytið eggjahvítur ásamt 1 msk. af sykri. Þeytið eggjarauður ásamt 1 msk. af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Brjótið marengsbotninn niður og saxið Tobleronesúkkulaðið. Um það bil 2 msk. af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek. eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Blandið því næst varlega saman með sleikju þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone. Hráefnunum er blandað gróflega saman, það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Setjið í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín. áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum og ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.
Verði ykkur að góðu:)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.