Of margir nota ekki réttan búnað fyrir börn í bílum

Rétt spennt barn í bíl er öruggt barn í bíl

Umferðarstofa, Forvarnahúsið og Slysavarnafélagið Landsbjörg könnuðu öryggi leikskólabarna í bílum í maí á síðasta ári. Farið var í 58 leikskóla og öryggisbúnaður 1886 barna skoðaður.  Ef litið er til könnunar frá árinu 2008 er sláandi hversu illa Sauðárkrókur og Hvammstangi koma þar út.

Á Sauðárkróki var niðurstaðan sú að í of mörgum tilfellum var öryggisbúnaður barna í bílum ófullnægjandi. Hvammstangi var meðal þeirra sveitarfélaga sem komu verst út meðal þeirra sem voru með börn sín alveg laus í bílnum.
Hér koma nokkrar öryggisstaðreyndir um börn í bílum:

 
Barn lægra en 150 sm á hæð má ekki sitja í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið. Höggið sem öryggispúðinn gefur þegar hann springur út getur leitt barn til dauða þó hann veiti fullorðnum öryggi.

Barn undir 18 kg er mun betur varið í bakvísandi barnabílstól en framvísandi stól ef bíllinn lendir í árekstri. Höfuð barns á þessum aldri er hlutfallslega stærra og þyngra en höfuð eldra barns og hálsliðir ekki fullþroskaðir. Snúi barnið fram er líklegra að það hljóti alvarlega áverka á mænu, hálsliðum og heila í árekstri.

Öryggisbelti er ekki fullnægjandi búnaður fyrir barn sem er undir 36 kg. Fyrr er beinagrind barna ekki orðin nægilega þroskuð til að öryggisbeltið sitji rétt. Bílbeltið getur veitt barni undir 36 kg alvarlega áverka í kviðarholi lendi það í árekstri.
Skylt er að öll börn njóti þess öryggis sem fylgir notkun öryggisbúnaðar í bíl. Ökumaður sem ekki sinnir þessum skyldum má búast við að verða sektaður af lögreglu og að brot hans verði skráð í ökuferilsskrá. Sektin er 10 þúsund krónur á hvert barn sem er laust í bílnum.

 
Algengar spurningar
Hér fylgja nokkur dæmi um spurningar frá foreldrum.

1. Er hættulegt fyrir barnið að sitja of lengi í ungbarnastól? Eigum við frekar að nota barnavagnskörfuna ásamt neti?
Ekkert bendir til þess að barnið skaðist af því að sitja of lengi í ungbarnastólnum. Best er að hlusta á barnið og laga aksturstímann eftir óskum þess. Fyrir barnið er öruggasti ferðamátinn í ungbarnastól sem er rétt festur og snýr baki í akstursstefnuna.
Að hafa barnið í burðarrúmi eða barnavagnskörfu er verri kostur þar sem barnið liggur langsum í þeim og þau geta meiðst á hnakka ef nauðhemlað er eða árekstur verður. Jafnvel kornabörn láta vita af því ef þau sitja ekki þægilega. Þegar langferðir eru skipulagðar er mikilvægt að reikna með hléum.

2. Getur barn undir 150 sm setið á beltapúða í framsætinu ef öryggispúði er til staðar?
Nei í umferðarlögum segir: Barn sem er lægra en 150 sm á hæð má ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið. Ekki má lengja barnið með beltapúða.

3. Við hvaða aldur/þyngd/lengd má hafa barnið á beltapúða í stað barnabílstóls?
Börn eiga að snúa baki í akstursstefnu eins lengi og þau geta. Þegar barnið er vaxið upp úr barnabílstól er mælt með því að skipt sé yfir í beltastól/bílpúða með baki sem styður og verndar höfuð barnsins.

4. Hvenær er barn vaxið upp úr barnabílstól?
Barnið er vaxið upp úr barnabílstól þegar höfuð þess nær upp fyrir stólbakið. Hvort velja eigi beltastól eða beltapúða ræðst fyrst og fremst af því hvar bílbeltið hafnar á barninu. Beltið á að liggja í kverkinni milli háls og axlar og skáhallt yfir bringubeinið. Ef beltið lendir of hátt er betra að velja stól með stillingarbúnaði á hliðinni. Beltastóll/bílpúði með baki veitir og höfði barnsins svolítið aukna vernd.

5. Eru hliðar öryggispúðar (úr hurðinni) og s.k. öryggisgardínur (frá bitunum) jafn hættulegar börnum og öryggispúðinn farþegamegin í framsætinu.
Samkvæmt því sem nú er vitað eru hliðarpúðar og öryggisgardínur ekki svo hættulegar börnum. Hlutverk hliðarpúðans er að koma í veg fyrir að bíll eða annað það sem lendir á hlið bílsins meiði farþegann. Það sem kann að gerast er að púðinn ýti barninu og stólnum frá en barnið situr hins vegar oftast nær ekki svo nálægt staðnum þar sem púðinn blæs upp.

6. Hver er endingartími barnabílstóls ?
Rannsóknir á öldrunareiginleikum plasts sem gerðar voru við Tækniháskólann í Linköping sýna að ekki á að nota öryggisbúnað lengur en í um 10 ár en tíminn ræðst einnig af því í hverju búnaðurinn hefur lent. Alltaf á að skipta um öryggisbúnað sem lent hefur í árekstri og einnig á að skipta um stól með sprungum og þess háttar skemmdum óháð aldri hans. Ekki mega heldur vera skemmdir á beltum og festingum. Ungbarnastólar hafa skemmri endingartíma m.a. vegna þess að þeir eru meira á þeytingi og eru meira notaðir utan bílsins þannig að þeir verða fyrir meira hnjaski. Best er að fara eftir meðmælum framleiðenda sem eru almennt 5-7 ár.
Á nýjum viðurkenndum vörum á framleiðsludagurinn að sjást annað hvort greyptur í, stimplaður á eða prentaður á límmiða.

7. Er öryggispúði farþegamegin í framsæti hættulegur barnshafandi konu?
Fyrir barnshafandi konu er ekki gott að sitja of nálægt öryggispúða né heldur sitja of nálægt stýrinu sem getur orðið hættulegt ef árekstur verður. Þegar maginn er orðinn mjög stór er betra að konan sitji í farþegasætinu. Ef öryggispúði er einnig þar er mælt með því að ýta sætinu eins langt aftur og hægt er. Eða konan sitji í aftursæti.

8. Ég þarf rök fyrir því að öruggara sé fyrir börn upp að 3-4 ára aldri að snúa baki í akstursstefnu. Dagmamman telur í lagi að láta þau snúa í akstursstefnu þegar þau eru 1½ árs.
Höfuð barns er stórt og þungt miðað við líkamsþunga. Á fjögurra ára barni er þungi höfuðsins um 18% af líkamsþunga samanborið við 6% á fullorðnum.
Umferðarstofnanir á öllum Norðurlöndunum mæla með því að börn séu látin snúa baki í akstursstefnu eins lengi og hægt er, helst þar til þau eru 3-4-ára. Rannsóknir sýna að barnabílstóll sem snýr baki í akstursstefnu minnki áverkaáhrifin u.þ.b. 90% en samsvarandi tala fyrir barnabílstól sem snýr í akstursstefnu er u.þ.b. 60%.
Á 9 mánaða barni er höfuðið 25% líkamsþyngdar. Í árekstri eða þegar nauðhemlað er kastast höfuðið fyrst áfram og svo aftur af svo miklu afli að barnið í verstu tilvikum slasast alvarlega á hnakka eða það deyr því hnakkavöðvarnir eru ekki nógu þroskaðir til að þola álagið.

9. Hvaða reglur gilda um barnabílstóla.
Öryggisbúnaður á að uppfylla kröfur ECE R 44/03 eða ECE R 44/04 sem merkir að búnaðurinn hefur staðist prófanir samkvæmt prófunarreglum ECE R. 44/03 og ECE R 44/04. Hér á landi er öryggisbúnaður einnig viðurkenndur samkvæmt viðeigandi FMVSS eða CMVSS bandarískum og kanadískum stöðlum. Þess ber þó að geta að ekki er hægt að festa bandaríska og kanadíska barnabílstóla samkvæmt leiðbeiningum sem stólunum fylgja nema í bíla sem eru framleiddir fyrir bandarískan og kanadískan markað.

Barnabílstól á að festa í bílinn samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda. Barnabílstóll á að uppfylla kröfur samkvæmt prófunarreglum ECE R 44/03 og ECE R 44/04. Hér á landi er öryggisbúnaður einnig viðurkenndur samkvæmt viðeigandi FMVSS eða CMVSS bandarískum og kanadískum stöðlum. Þess ber þó að geta að ekki er hægt að festa marga bandaríska og kanadíska barnabílstóla samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda í bíla sem framleiddir eru fyrir Evrópumarkað. Bandarískir og kanadískir barnabílstólar eru hannaðir fyrir bíla sem eru framleiddir fyrir þessi lönd.

10. Eru til sérstakir barnabílstólar fyrir börn með sérþarfir?
Já það er til barnabílstólar fyrir börn með sérþarfir en þá þarf yfirleitt að sérpanta.

11. Má sitja undir barni í bíl?
Nei það má aldrei sitja undir barni í bíl. Ef árekstur verður fær barnið, en ekki sá sem heldur á því, mesta höggið.

12. Hver er sektin ef öryggisbúnaður fyrir börn er ekki notaður?
Ökumaður ber ábyrgð á að öryggisbúnaður er notaður í bílnum. Ef sérstakur öryggisbúnaður fyrir barn er ekki notaður er sektin 10 þúsund en ef þess er ekki gætt að farþegi yngri en 15 ára noti neinn öryggisbúnað er sektin 15 þúsund.
Heimild: Umferðastofa.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir