Nemendur Húnavallaskóla í vorferðalög

Þann 11. maí voru flestir nemendur Húnavallaskóla í vorferðalögum.  1.-4. bekkur tók stefnuna á Hvammstanga þar sem skoðað var Selasetrið og farið í göngutúr.  Hádegismatur var snæddur í Flóðvangi. 

Til stóð að fara í sund á Húnavöllum í lok ferðarinnar en þar sem veðrið var eins og best verður á kosið þá féll það niður og útileikir stundaðir í þess stað.

Hópurinn kom í Húnavelli um klukkan 15:30 og síðan var farið heim með skólabílum. 5., 6. og 7. bekkur hélt upp frá Húnavöllum klukkan 9:00 og tók stefnuna á Akureyri. 

Byrjað var á að skoða Flugsafnið og eftir nestistíma voru Nonnahús og Minjasafnið á Akureyri heimsótt.  Um klukkan 14:00  var haldið til Dalvíkur og byggðasafnið á staðnum heimsótt.  Eftir það var afgangurinn af nestinu snæddur og síðan farið í sund á Dalvík.  Dagurinn endaði síðan á pitsahlaðborði á veitingastaðnum Pitsa Vero.  Haldið var heimleiðis um klukkan 19:00 um kvöldið.

8. og 9. bekkur fór í tveggja daga ferðalag þetta árið.  Lagt var af stað um klukkan 9:00 mánudaginn 10. maí.  ferðinni var heitið á Snæfellsnes og ekið sem leið lá vestur í Dali um Laxárdalsheiði.  Áð var í Dalasýslu og snætt nesti og síðan ekið í Stykkishólm.  Þar var farið í svokallaða Suðureyjaferð en það er skemmtisigling um suðureyjar Breiðafjarðar.  Ferðin tók um 2 klukkustundir og 15 mínútur og var nemendum boðið upp á nýveiddan skelfisk og ígulkerjahrogn, ásamt því að skoða fjöldann allan af öðrum sjávardýrum.  Í ferðinni er einnig skoðað fjölskrúðugt fuglalíf Breiðafjarðar, sérkennilegar bergmyndanir, siglt er inn í sjávarfallastrauma og ýmis sérkenni eyjanna skoðuð.  Um borð var einnig pizzuhlaðborð, þar sem boðið var upp á 3 eða 4 tegundir og gos með. Eftir sjóferðina var farið í sund í Stykkishólmi en þar er mjög skemmtileg laug með rennibrautum og fleiru.

Frá Stykkishólmi var síðan ekið í náttstað í Lýsuhólsskóla sem er á sunnanverðu nesinu.  Slegið var upp grilli á staðnum og eitt og annað gert til skemmtunar.  Borðaður var góður morgunverður á Lýsuhóli á þriðjudagsmorguninn og ferðinni síðan haldið áfram.  Ekið var í vesturátt að Búðum og Arnarstapa, þar sem umhverfið var skoðað og síðað var gengið frá Arnarstapa og yfir að Hellnum þar sem Kolbeinn bílstjóri beið með rútuna. 

Þá var haldið í Dritvík og reyndu nemendur  sig við steinana frægu sem þar eru.  Áfram var ekið vestur fyrir Snæfellsnes og norður um, stoppað í söluskála í Ólafsvík þar sem hver keypti fyrir sig það sem hugurinn girntist.  Síðan var ekið í Barnarhöfn þar sem tekið var hús á Hildibrandi Bjarnasyni og kirkjan á staðnum skoðuð sem og hákarlaverksmiðjan sem er landsfræg fyrir frábæran hákarl.  Þegar þarna var komið sögu var orðið langt liðið á dag og tímabært að halda heim á leið.

Allar voru þessar ferðir mjög vel heppnaðar og veðrið nánast lék við ferðalangana.  Aðfaranótt föstudagsins 14. maí halda síðan nemendur 10. bekkjar ásamt umsjónarkennara sínum og einu foreldri í hina árlegu útskriftarferð til Kaupmannahafnar.  Hópurinn kemur heim um miðjan dag fimmtudaginn 20. maí og vonum við að ferðin verði vel heppnuð og öllum til ánægju.  

/Húnavallaskóli

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir