Mörg mál brýnni en herbergjaskipan á Alþingi
Vísir.is greinir frá því að Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, undrast þá athygli sem herbergjaskipan á Alþingi hefur fengið að undanförnu. Hann telur mun brýnna að stjórnarflokkarnir ræði mál sem varði heimilin og fyrirtækin í landinu. Gunnar viðurkennir að herbergið er tilfinningalega tengt Framsóknarflokknum.
Að undanförnu hefur talsverið fjallað um að framsóknarmenn vilji ekki flytja úr þingflokksherbergi sem flokkurinn hefur haft til umráða í Alþingishúsinu undanfarna áratugi. Á grundvelli kosningaúrslitanna ákvað skrifstofa Alþingis að þingflokkar Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn hefðu herbergjaskipti. Núverandi þingflokksherbergi VG rúmar einungis níu þingmenn en flokkurinn fékk 14 þingmenn kjörna í kosningunum. Þingmenn Framsóknarflokksins eru níu.
Fóðra fjölmiðla með smámálum
„Ég held að stjórnarflokkarnir ættu að einbeita sér að mikilvægari málum heldur en að fóðra fjölmiðla með smámálum eins og um þetta tiltekna þingflokksherbergi," segir Gunnar.
Þingflokksformaðurinn vill að stjórnarflokkarnir tali minna um sátt og samlyndi og komi þess í stað fram með mál sem snerti almenning í landinu.
Gunnar segir að þingmenn framsóknarflokksins telji að vel sé hægt að leysa herbergjaskipan þingflokka í þinghúsinu án þess að framsóknarmenn yfirgefi það herbergi sem flokkurinn hafi haft í yfir tugi ára. Hann viðurkennir að herbergið er tilfinningalega tengt Framsóknarflokknum.
Vel hægt að leysa málið innanhús
„Það er enginn flokkur hafinn yfir þingið en að okkar mati er hægt að leysa málið með öðrum hætti innanhús," segir Gunnar og bendir á að Vinstri grænir hafa sýnt málinu mikinn skilning og vilji ekki endilega þetta tiltekna herbergi. „Þeir þurfa eðlilega að fá aðstöðu og á því höfum við mikinn skilning."
Vel tekið á móti nýjum þingmönnum
Gunnar er einn af fjölmörgum nýliðum á þingi. Hann segir starfsfólk Alþingis hafa tekið afskaplega vel tekið á móti sér og öðrum nýjum þingmönnum. „Okkur mætir í rauninni einstakt viðhorf meðal starfsfólks og allir eru hjálplegir við okkur sem eru að koma ný inn."
Heimild: Vísir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.