Mögnuð Sturlungadagskrá
Sturlungadagskrá síðustu helgar var vel sótt enda um fjölbreytta og afar fróðlega atburði að ræða. Dagskráin hófst með því að Einar Kárason rithöfundur flutti erindi í menningarhúsinu Miðgarði en svo rak hver atburðurinn annan fram á kvöld á Sturlungaslóðum.
Á grundunum fyrir ofan Syðstu-Grund var reistur róðukross til að minna á atburði er gerðust á Sturlungaöld en róðukross stóð forðum eftir fall Brands Kolbeinssonar héraðshöfðingja Ásbirninga í Haugsnesbardaga árið 1246. Sigurður Hansen bóndi á Kringlumýri útskýrði hugmynd sína að bardaganum og hvernig hann hefur fært til mörg hundruð steina sem hver og einn á að tákna eina manneskju, eitt mannslíf.
Söngdagskrá var bæði í Miðgarði og í Miklabæjarkirkju en dagskránni lauk svo um kvöldið að hætti miðaldamanna undir styrkri stjórn Eyþórs Árnasonar frá Uppsölum.
Ekki eru aðstandendur Sturlungaslóðar alveg hætt því síðasta gönguferð sumarsins verður farin um næstu helgi. Þá verður gengið frá Örlygsstöðum að Flugumýri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.