Mikil aukning á útflutningi frá Kidka á Hvammstanga
Mikil aukning er á sölu prjónaðra voða til Rússlands frá Kidka á Hvammstanga en þar er rekin prjónastofa og túristaverslun. Gert er ráð fyrir 50 % söluaukningu milli ára.
Kidka sem er fjölskyldufyrirtæki þeirra Kristins Karlssonar og Irinu Kamp á Hvammstanga, hefur undanfarin ár framleitt og selt prjónaðar voðir til Rússlands. Í fyrra voru sendir út fjórir 20 feta gámar af framleiðslunni en í ár stefnir í að þeir verði alls sex, sem mun vera nálægt 18 tonnum. Alls starfa fimm manns á prjónastofunni sem skapar þó fleiri störf því að á Sveinsstöðum er rekin saumastofa þar sem saumaðar eru flíkur úr prjóninu.
Kristinn segir að gengið sé mjög hagstætt núna fyrir útflutninginn og sýnir í raun hve vitlaust það hafi verið skráð þegar svokallað góðæri gekk yfir. –Það skiptir máli hvernig gengi krónunnar er og þarf að skoða það hverjir eru að búa til alvöru peninga, en ekki eitthvert papparusl, segir Kristinn.
Við prjónastofuna er rekin túristaverslun þar sem ýmsar vörur er á boðstólnum og hefur fólk átt þess kost að ganga gegnum fyrirtækið og skoða framleiðsluferli vörunnar. Kristinn segir að verslunin hafi tvöfaldast undanfarin ár með fjölgun ferðamanna þá sérstaklega á síðasta ári og hann er bjartsýnn á komandi sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.