Leggst sauðfjárslátrun af á Hvammstanga og Blönduósi?

Sláturhús SKVH á Hvammstanga. MYND AF NETINU
Sláturhús SKVH á Hvammstanga. MYND AF NETINU

RÚV sagði frá því í vikunni að Kaupfélag Skagfirðinga hafi llagt til við stjórn Sláturhúss Kaupfélags Vestur-Húnvetninga að slátrun verði hætt í sláturhúsinu. Þetta staðfestir Þórunn Ýr Elíasdóttir, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Vestur-Húnvetninga í samtali við RÚV. Kaupfélag Vestur-Húnvetninga á helmingshlut í sláturhúsinu á móti KS og þarf því að samþykkja breytingarnar.

Breytingatillögurnar voru kynntar á fundi á vegum KVH á Hvammstanga sl. miðvikudag en þangað voru tveir fulltrúar KS mættir. Fundurinn mun hafa farið vel fram en eðlilega hafði fólk skoðanir á áætlununum. Þórunn segir að fulltrúaráð KVH komi saman í byrjun desember þar sem kosið verður um tillögu KS.

Sveitarstjóri Húnaþings vestra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, segir tillögurnar nýjar og að ekki liggi fyrir hver áhrifin verða. „Eins og þetta lítur út hefur KS áform um að flytja alla slátrun á Sauðárkrók en efla kjötvinnslu á Hvammstanga á móti. Auðvitað fela allar svona breytingar í sér einhvers konar rask, sem er kannski erfitt að leggja mat á. Við þurfum bara að skoða betur hver möguleg áhrif verða með tilliti til starfa og útsvars og annað, og eins þessa þjónustuskerðingu. Ég hef hvorki forsendur til að hafa áhyggjur af þessu né fagna því. Við verðum bara að skoða þetta aðeins betur,“ segir Unnur Valborg í viðtali við RÚV.

Þá segir í fréttinni að ekki muni fara fram sauðfjárslátrun hjá SAH Afurðum á Blönduósi á næsta ári. „SAH Afurðir ehf. eru í eigu Kjarnafæði-Norðlenska hf., sem svo aftur er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, sem keypti Kjarnafæði-Norðlenska í september eftir að kjötafurðastöðvar voru gerðar undanþegnar samkeppnislögum með breytingu á búvörulögum sem Alþingi samþykkti í haust,“ segir í frétt RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir