Lá beint við að fara að vinna við áhugamálið

Jóhann og Stóri Boris á hlaðinu á Egilsá. Í dag á fyrirtækið þrjá Superjeppa, sjö manna Patrol og tvo Ford Ek, 11 og 14 manna. Aðsendar myndir.
Jóhann og Stóri Boris á hlaðinu á Egilsá. Í dag á fyrirtækið þrjá Superjeppa, sjö manna Patrol og tvo Ford Ek, 11 og 14 manna. Aðsendar myndir.

Fyrirtækið JRJ Jeppaferðir var stofnað þann 16. desember 1995 og eru því nákvæmlega 25 ár liðin frá stofnun þess. Eigandi og stofnandi fyrirtækisins er Jóhann R. Jakobsson sem hefur stýrt því frá upphafi. Feykir náði tali af Jóhanni í því skyni að forvitnast um starfsemi fyrirtækisins og tilurð þess.Við rætur Hofsjökuls.

JRJ jeppaferðir voru stofnaðar með það að tilgangi að kynna ferðamönnum Ísland. „Ég hafði rekið JRJ Bifreiðasmiðju frá árinu 1978 til 1995 í Varmahlíð en þá var sú iðngrein að líða undir lok vegna innflutnings á fullbúnum bílum,“ segir Jóhann. „Ferðmennskan er baktería sem fylgdi mér úr föðurhúsum. Fyrsta jeppann, rússajeppa, eignaðist ég 17 ára, árið 1967. Þá byrjaði það ævintýri að ferðast fyrir alvöru, hver stund var notuð. Það voru kannski teknar 2-3 vikur á hálendinu að sumarlagi með félögunum og vetrarferðir inn á Hveravelli, inn í Þórsmörk og páskaferðir í Öræfasveit, sem voru ógleymalegir túrar. Á þessum tímum voru aðstæður til ferðalaga allt aðrar en í dag. Það er dýrmætt nesti í reynslubankann að hafa kynnst landinu ósnortnu. Á þessum tímum voru fáir að ferðast og maður varð bara að bjarga sér ef eitthvað kom fyrir.“

Jóhann segir að þegar hann hafi hætt með Bifreiðasmiðjuna hafi því legið beint við að fara að vinna við áhugamálið og segir að það að geta sýnt ferðamönnum hálendi Íslands séu mikil forréttindi. „Það tekur tíma að vinna markað í þessum bransa. Ég ákvað í upphafi að markaðssetja eingöngu á netinu og hef haldið mig við það, vissi að það væri framtíðin í ferðabransanum.“

Rekur einnig gistiheimili
Jóhann segir að hann hafi snemma farið að bjóða upp á ferðir fyrir Íslendinga sem hafi verið vel tekið þar sem ekki eigi allir þess kost að ferðast um hálendið á eigin vegum. Í dag býður fyrirtækið upp á fjórar dagsferðir frá Reykjavík og fjórar dagsferðir frá Egilsá og Akureyri. „Við hönnuðum sér ferð fyrir íslenskan markað, hálendisferð, þar sem farið er úr Skagafirði upp í Laugarfell, um Sprengisand, Gæsavatnaleið og Holuhraun í Öskju og Herðubreið og þaðan í Mývatnssveit. Þetta er langvinsælasta ferðin okkar og í júlí á næsta ári verður ferð númer 60 farin.“

JRJ jeppaferðir bjóða ekki eingöngu upp á ferðalög heldur rekur Jóhann gistiheimili sem hefur verið vel tekið af viðskiptavinum. „Árið 2010 ákvað ég að bæta í og fyritækið flutti starfsemina að Egilsá í Akrahreppi. Nú er þar Gistihúsið Himnasvalir sem hefur fengið frábærar viðtökur frá upphafi. Síðasta sumar opnuðum við svo tjaldsvæði. Ennig trússum við gönguhópa um allt land og bjóðum upp á sérferðir fyrir hópa og fyrirtæki eftir þeirra óskum og aðstoðum við skipulagningu. Við lítum björtum augum á framtíðina og erum með í undirbúningi að stofna JRJ Ferðaskrifstofu til að eiga meiri tækifæri næstu árin,“ segir Jóhann að lokum.

Allar upplýsingar um þjónustu fyrirtækisins má nálgast á www.jeppaferdir.is  og www.jrjsuperjeep.is  fyrir erlendan markað. 

Viðtalið birtist í 48. tbl. Feykis, 16. desember 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir