Stólarnir spila undanúrslitaleik á Reyðarfirði á morgun
Karlalið Tindastóls er ekki enn alveg komið í frí frá fótboltanum en strákarnir spila á morgun, laugardaginn 21. september, við lið KFA í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í undanúrslitum Fótbolta.net bikarsins. „Leikurinn leggst mjög vel í okkur, erum búnir að bíða í tvær vikur svo menn eru klárir í þetta,“ sagði Sverrir Hrafn Friðriksson, fyrirliði Tindastóls, þegar Feykir hafði samband.
„Við erum bara þokkalega heilir fyrir þennan leik, nokkrir að glíma við smávægileg meiðsli en reikna með að allir séu klárir í leikinn,“ sagði Sverrir.
KFA, Knattspynufélag Austurlands, er andstæðingur Stólanna en KFA endaði í fimmta sæti 2. deildar og vann til að mynda lið Kormáks/Hvatar tvívegis í sumar og það nokkuð örugglega.
Hvernig líst mönnum á andstæðinginn, KFA, er Dom búinn að skoða þá? „Okkur líst vel á KFA. Hörkulið sem átti klárlega að vera að berjast um að komast í í 1. deild. Dom er búinn að fara yfir þeirra leik og sýna okkur þeirra helstu styrkleika og veikleika svo við förum bara mjög brattir austur.“
Sverrir segir að liðið haldi austur í dag. „Leggjumst til hvílu á Eiðum í kvöld. Verðum úthvíldir og klárir í slaginn þegar blásið verður til leiks klukkan 13:00 á morgun.“
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Selfoss og Árbær á Selfossi. Selfyssingar, sem leika undir stjórn Bjarna okkar Jó, sigruðu 2. deildina nokkuð örugglega en lið Árborgar missti naumlega af sæti í 2. deild, enduðu í þriðja sæti 3. deildar. Lið Tindastóls sigraði 4. deildina örugglega og hefur unnið ellefu leiki í röð. Strákarnir ættu því að mæta til leiks fullir sjálfstrausts þó andstæðingurinn spila tveimur deildum ofar. Gulrótin fyrir leikmenn er að útslitaleikur Fótbolta.net bikarsins verður spilaður á Laugardalsvelli – þangað mæta Stólarnir vanalega ekki nema kannski á pallana.
Koma svo – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.