Nýtt fjós í byggingu á Ytri Hofdölum

MYND AÐSEND.
MYND AÐSEND.

Systkinin Þórdís Halldórsdóttir og Þórarinn Már Halldórsson standa að búskapnum á Ytri Hofdölum í Skagafirði, Herbert Hjálmarsson maður Þórdísar er svo yfirsmiðurinn á bænum og eiga þau börnin Hjálmar Herbertsson og Iðunni Ýri Herbertsdóttur. Foreldrar Þórdísar og Þórarins eru þau Halldór Jónasson og Halldóra Lilja Þórarinsdóttir og eru allt í öllu ennþá á bænum og aðstoða í búskapnum. Eins og er eru 30 mjólkandi kýr, ört stækkandi geldneytahópur, 200 kindur og 30 truntur út í móa. Tveir hundar og þrír kettir.

Á Ytri Hofdölum er nú í byggingu nýtt 1000 fm2 fjós og fór grafan á kaf með bómuna 28.júní nú í sumar 2024, segir Þórdís. Staðan í dag er sú að það er búið að steypa haughúsið, næst verða súlur og sökkulveggir steyptir. Burðarbitar eru klárir og gólfbitarnir voru að mæta á hlaðið í þessum töluðu orðum.Gert er ráð fyrir einum mjaltaþjón í fjósinu og allt kvígu uppeldið verður einnig undir fjósþakinu.

Blaðamanni Feykis lék forvitni á að vita hvers vegna verið væri að ráðast í byggingu á nýju fjósi núna, hvort það sé ekki erfitt í þessu vaxta og lána umhverfi sem er í dag? „Það var annaðhvort nú eða aldrei. Ef við ætlum okkur að vera í mjólkurframleiðslu áfram þá þurfti að fara að gera eitthvað. Núverandi fjós er gamalt og lúið. Þetta er hægt með aðstoð bakhjarla – en væri algerlega vonlaust án þeirra stuðnings. Það sem fer upp kemur alltaf einhvern daginn aftur niður (vextirnir).“ segir Þórdís. Þórdís var svo að lokum spurð hvenær fjósið ætti svo að verða klárt, það fannst henni góð spurning og lofar partýi á næsta ári 2025, en hvenær árs liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir