Hólar til framtíðar

Teitur Björn Einarsson.MYND AðSEND
Teitur Björn Einarsson.MYND AðSEND

Hólahátíð var haldin dagana 17.-18. ágúst síðastliðna venju samkvæmt og tókst hún í alla staði afar vel. Hólaræðu að þessu sinni flutti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Var það vel til fundið því málefni Háskólans á Hólum hefur verið nokkuð í deiglunni að undanförnu í ljósi stefnumörkunar ráðherra og því að skólinn og Háskóli Íslands undirbúa nú að hefja samstarf á grunni nýrrar háskólasamstæðu á næsta ári.

Uppbygging Háskólans á Hólum

Full ástæða er til að taka undir orð Áslaugar Örnu í ræðu hennar þar sem hún vék að mikilvægi þess að tryggja Hólastað þá virðingu og viðhald sem staðurinn ætti skilið:

,,Fyrir dyrum liggja áform um spennandi uppbyggingu bæði hér í Hjaltadal og á Sauðárkróki, meðal annars með enn öflugra og fjölbreyttara námi í undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar. Slík tækifæri ætlum við að nýta til að efla samkeppnishæfni landsins alls og byggja spennandi framtíð á sögu og arfleið sem við megum vera stolt af. […] En ég er á sama tíma verulega stolt af því sem hefur gerst síðan og hvernig framtíðarhorfur skólans eru og við munum tryggja staðnum þá virðingu og viðhald sem staðurinn á skilið. Framkvæmdir eru framundan og undirbúningur hafinn.”

Hér vísar ráðherra til þess að undirbúningur er hafinn og fjármögnun tryggð fyrir byggingu á sérhæfðu kennslu- og rannsóknarhúsnæði í lagareldi sem og sjávar- og ferskvatnslíffræði á Sauðárkróki. En í ágúst í fyrra missti skólinn húsnæði sitt á Sauðárkróki, þar sem aðstaða til bæði ferskvatns- og sjórannsókna var til staðar, og því er afar brýnt að ný aðstaða skólans á Sauðárkróki verði tilbúin sem fyrst.

Undir þessi áform öll höfum við í meirihluta fjárlaganefndar Alþingis tekið og gerðum í vor sérstaka tillögu um 350 milljón króna framlag í fjármálaáætlun 2025-2029 til að tryggja aðstöðu í seinni fösum í uppbyggingu húsnæðis skólans fyrir starfsemi námsbrauta í hestafræðum og ferðamálum sem og stoðdeild skólans á Hólum.

Framtíðarskipulag á Hólum

Samhliða traustum og góðum áformum um uppbyggingu Háskólans á Hólum er vinna hafin við að útfæra framtíðarskipulag staðarins enda ekki vanþörf á. Hólastaður er einn merkasti sögu-, mennta- og menningarstaður þjóðarinnar og er saga staðarins er samofin sögu þjóðarinnar í um 900 ár. Í mínum huga eru Hólar í sömu úrvaldsdeild og Þingvellir, ef grípa má til slíkrar samlíkingar.

En horfast verður í augu við að undanfarna áratugi hefur staðurinn látið undan og flækjustigið á eignarhaldi og óljós ábyrgð á staðnum hefur valdið aðgerðarleysi og stöðnun. Er nú svo komið að brýnna viðhaldsaðgerða og uppbyggingu innviða er þörf til þess að hægt verði að skipa Hólastað á þann sess sem hann á skilið.

Af þessum sökum setti forsætisráðherra í vor á fót starfshóp um framtíðarskipulag Hóla, sem fyrr var getið, og mun hópurinn skila af sér tillögum í haust. Fyrir hópnum liggur úttekt og frumhönnun um endurreisn Hóla sem þjóðmenningarstaðs, sem bjóði upp á hágæða menningarferðaþjónustu samhliða starfsemi Þjóðkirkjunnar og háskólans á staðnum. Ýmis misflókin úrlausnarefni munu bíða fyrirsjáanlega í framhaldinu og því mikilvægt að góð samstaða ríki um þau verkefni sem ráðast þarf í meðal sveitarfélagsins í Skagafirði, ríkisins, kirkjunnar, skólans og annarra sem málið varðar.

En það sem mestu máli skiptir er að ríkið taki af skarið svo aðrir fylgi og ákveði með afgerandi hætti að klára verkefnið með myndarbrag sem hefji Hólastað aftur til vegs og virðingar. Það mun ekki einungis reynast Skagfirðingum og öðrum Norðlendingum heilladrjúgt þegar fram í sækir heldur þjóðinni allri.

Teitur Björn Einarsson,

höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir