Kór Akraneskirkju í Menningarhúsinu Miðgarði.

Kór Akraneskirkju heldur tónleika í Menningarhúsinu Miðgarði, fimmtudaginn 7. maí  kl. 20:30.

Á efnisskránni, sem innheldur veraldlega sem andlega kórtónlist, má finna sálma eftir Sigurbjörn Einarsson og Hallgrím Pétursson í útsetningum Gunnars Gunnarssonar. Einnig þekkt alþýðulög í útsetningum Magnúsar Ingimarssonar og flutt verður nýlegt lag sem tengist sögu Reynisstaðabræðra eftir Akurnesinginn Baldur Ketilsson við ljóð Jóns Gunnars Axelssonar, félaga í kórnum. Dægurlög, sem tengjast Akranesi, verða flutt í útsetningum sem gerðar hafa verið fyrir kórinn og mun Kata þar m.a. rokka og Angelía svífa um. Með kórnum leika Gunnar Gunnarsson á píanó, Tómas R. Einarsson á kontrabassa og Kristín Sigurjónsdóttir á fiðlu.
Sigursteinn Hákonarson (Steini í Dúmbó) syngur einsöng.
Stjórnandi Kór Akraneskirkju er Sveinn Arnar Sæmundsson frá Syðstu-Grund.

Kór Akraneskirkju telur 50 félaga og hefur kórinn hlotið afbragðsdóma fyrir söng sinn á undanförnum árum. Kórinn hefur miklum skyldum að gegna við Akraneskirkju en einnig hefur kórinn það á stefnuskrá sinni að syngja mjög fjölbreytta kórtónlist. Gunnar og Tómas eru báðir virtir tónlistarmenn og m.a. fékk nýútkominn diskur Gunnars, Hrím, frábæra dóma. Þar leikur Gunnar ásamt Tómasi, útsetningar sínar af íslenskum þjóðlögum.  Kór Akraneskirkju er í góðu formi og hefur verið gerður góður rómur að velheppnuðu samstarfi kórsins og þeirra félaga.

 Á efnisskránni, sem sungin verður í Miðgarði, ættu allir að geta fengið að heyra eitthvað við sitt hæfi.

Aðgangseyrir er kr. 1500 en hægt er að tryggja sér miða á kr. 1000 með því að senda póst á netfangið arnar@akraneskirkja.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir