Kaupfélag Skagfirðinga færir skólunum í Skagafirði hátæknibúnað að gjöf
Kaupfélag Skagfirðinga færði í gær grunnskólunum á Hofsósi, í Varmahlíð og á Sauðárkróki ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, hátæknibúnað, til örvunar nýsköpunar, að gjöf.
Hver skóli fékk afhenta nýjustu útgáfu af háþróuðum þrívíddarprentara frá MakerBot af gerðinni MakerBot Replicator+ ásamt þrívíddarforritunum MakerBot Print og MakeBot Mobile. Prentararnir eru framleiddir í Bandaríkjunum en mikil framþróun hefur átt sér stað í þróun þrívíddarprentara á síðustu árum.
Herdís Á. Sæmundardóttir, varaformaður stjórnar KS, Guðrún Sighvatsdóttir stjórnarmaður hjá KS, Ingileif Oddsdóttir stjórnarmaður hjá FISK Seafood ásamt Bjarna Maronssyni stjórnarformanni KS afhentu skólunum þessa höfðinglegu gjöf.
Markmiðið með gjöfinni er að vekja áhuga nemenda og skapa þeim tækifæri til að vinna með nýjustu tækni á þessu sviði. Að mati forsvarsmanna KS og skólayfirvalda er mikilvægt að gefa nemendum færi á að vinna með og læra á tækni sem er hluti af fjórðu iðnbyltingunni.
Óskar Björnsson, skólastjóri Árskóla, sagði við þetta tækifæri: „Þessi höfðinglega gjöf gefur okkar gríðarlega marga möguleika. Þetta tæki mun efla fjölbreytni í námi, nýsköpun, skapandi vinnu, tæknilausnir, smíðar o.fl.
Það verður áskorun til okkar sem störfum í Árskóla að læra á tækið þannig að það nýtist nemendum okkar sem best. Þetta gerir okkur vonandi kleift að búa nemendur okkar betur fyrir framtíðina. Fyrir hönd skólasamfélagsins í Árskóla færi ég Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækjum bestu þakkir fyrir þessa einstöku gjöf sem og stuðninginn gegnum árin.“
Sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sigfús Ingi Sigfússon, svo og skólastjórnendur færa Kaupfélagi Skagfirðinga sérstakar þakkir fyrir stórhöfðinglega gjöf sem ber vott um framsýni forsvarsmanna fyrirtækisins, en Kaupfélag Skagfirðinga hefur stutt skólasamfélagið í Skagafirði myndarlega á undangengnum árum með ýmsum hætti, sem vakið hefur verðskuldaða athygli, bæði í héraði og utan héraðs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.