Illviðri í kortunum og ekkert ferðaveður á morgun

Það eru viðvaranir vegna veðurs í kortum morgundagsins. VEÐURSTOFAN
Það eru viðvaranir vegna veðurs í kortum morgundagsins. VEÐURSTOFAN

Gul veðurviðvörun er í gildi sem stendur á Norðurlandi vestra en að þessu sinni er það nú aðallega stíf suðvestan átt sem lætur til sín taka. Viðvörunin fellur niður upp úr hádegi í dag en þegar líða tekur á daginn fer að rigna. Það lægir aðeins með kvöldinu en veður fer síðan versnandi þegar líður að hádegi á morgun, föstudag, og reiknað með stífri norðvestan átt og snjókomu þegar líður á daginn – í raun er spáð illviðri á landinu en sínu verst virðist veðrið eiga að vera austan Tröllaskaga.

Sem stendur gerir Veðurstofan ráð fyrir gulri viðvörun á Norðurlandi vestra frá hádegi á morgun og fram á laugardagsmorgun. πNorðvestan og norðan hvassviðri eða stormur, 18-23 m/s með snjókomu og lélegu skyggni. Miklar líkur á samgöngutruflunum. Ekkert ferðaveður,“ segir í spá Veðurstofunnar.

Spáin fyrir helgina er talsvert skaplegri en reikna má með að snemma á laugardagsmorgni rigni ofan í nýfallinn snjóinn en þegar kemur fram yfir hádegi gengur vindur niður og eins og Valdimar og Memfismafíana hafa bent á, þá styttir alltaf upp, og þannig virðist það verða á laugardaginn. Hitinn fer síðan niður fyrir frostmark á ný og það má reikna með vetrarveðri upp úr helginni en þó ekki sjáanlegur neinn ofsi í kortunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir