Íbúum Norðurlands vestra fjölgar um 0,7% milli ára
Íbúum Norðurlands vestra fjölgaði um 47 einstaklinga eða 0,7% á árs tímabili, frá 1. desember 2017 til 1. desember sl. samkvæmt tölum frá Þjóðskrá. Íbúum landshlutans fjölgaði um þrjá til viðbótar í desember. Mesta fjölgunin í landshlutanum á síðasta ári varð í Blönduósbæ þar sem fjölgaði um 43 frá 1. des. 2017 til 1. des. 2018. Nemur það 4,8% fjölgun.
Heildaríbúafjöldi á landinu öllu var, þann 1. desember 2018, 356.671 og hafði fjölgað um 2,4% milli ára. Hlutfallsleg fjölgun á árinu var mest í Mýrdalshreppi, 10,9%, en mest fækkaði í Reykhólahreppi, um 7,2%. Íbúum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi eystra.
Sé litil til Norðurlands vestra má sjá að heildarfjöldi íbúa á svæðinu var 7.227 þann 1. desember sl. en var kominn í 7.230 í byrjun þessa mánaðar. Íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Skagafirði var 3.945 þann 1. desember 2017 en var kominn upp í 3.990 þann 1. desember sl. sem er fjölgun um 45 einstaklinga eða 1,1%. Í Húnaþingi vestra voru íbúar 1.190 í desember 2017 og fækkaði um níu milli ára eða í 1.181 sem er 0,8% fækkun.
Sem fyrr segir fjölgaði íbúum Blönduósbæjar um 43 milli ára, úr 892 í 935 sem er 4,8% fjölgun en á Skagaströnd fækkaði um 21 íbúa á sama tíma, úr 480 þann 1. desember 2017 í 459 á sama tíma árið 2018. Er það 4,4% fækkun.
Íbúar Húnavatnshrepps voru 374 í desember 2018 og hafði fækkað úr 387 ári fyrr eða um 3,4% og í Skagabyggð, sem er fámennasta sveitarfélagið á svæðinu, fækkaði um fjóra íbúa eða 4,3% milli ára, úr 92 í 88 íbúa.
Íbúum Akrahrepps fjölgaði næstmest hlutfallslega á þessum tólf mánuðum, úr 194 í 200 og nemur það 3,1% fjölgun.
Upplýsingar um íbúafjölda má nálgast á vef Þjóðskrár. Eru þær uppfærðar mánaðarlega og byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.