Í [skagfirsku] poppi er þetta helst

KUSK, Malen og Salka Sól hafa átt góðu gengi að fagna á Vinsældarlista Rásar 2 upp á síðkastið. SAMSETT MYND
KUSK, Malen og Salka Sól hafa átt góðu gengi að fagna á Vinsældarlista Rásar 2 upp á síðkastið. SAMSETT MYND

Það má kannski halda því ögn fram að það hafi verið pínu skagfirsk slagsíða á Vinsældalista Rásar 2 síðustu vikur. Þannig sat um skeiða tengdadóttir Skagafjarðar, Salka Sól, makindalega á toppi listans með lagið Sólin og ég. Næst fyrir neðan var KUSK og bankaði á dyr Sölku Sólar en hin hálfskagfirska Kolbrún Óskarsdóttir gaf í byrjun sumars út notalegt bossanóva sumarlag sem hún syngur á sænsku og kallar einmitt Sommar.

Þá var Malen [Áskelsdóttir] komin ansi hátt á listann með lagið sitt hugljúfa, i don't know what i saw in you, en hæst fór það í sjötta sæti. Lagið hennar Right?, sem RAVEN söng með henni, náði í annað sætið á lista Rásar 2 fyrr á árinu. Malen tjáði Feyki að hún væri að klára nýtt lag sem kemur vonandi út fyrr en síðar og svo plata einhverntímann.

Ef við viljum aðeins teygja á þessum skagfirsku tengingum þá rekur Dr. Gunni ættir til Skagafjarðar en hann var á listanum ásamt Salóme Katrínu með lagið Í bríeríi, Svavar Knútur bjó nokkur ár í Skagafirði en hann er með lagið Refur á listanum og Billie Eilish er úr Blönduhl.... nei, djók.

Í vor gaf Sigvaldi Helgi Gunnarsson út EP-streymið Up North þar sem fjögur lög voru sungin á ensku og eitt á hinu ylhýra, lagið Hamingja sem rataði einmitt inn á Vinsældalista Rásar 2. Lögin frumsamin og tónlistina má sennilega segja vera kántrýskotið popp. Þá sagði Feykir frá því nýlega að Ingi Sigþór Gunnarsson hafi á dögunum gefið út lagið Fyrir þig.

Skoraði á sjálfa sig að semja á sænsku

Þar sem KUSK, Kolbrún Óskarsdóttir ( Óskarssonar læknis Jónssonar og Aðalheiðar Arnórs) hefur nú setið dágóðan tíma í öðru sæti listans var tilvalið að spyrja hana aðeins út í lagið. Hvers vegna ætli hún hafi ákveðið að syngja á sænsku?

„Ég bjó stóran hluta af æskuárunum mínum í Stokkhólmi í Svíþjóð og er því mjög kunnug þessum sænsku sumrum,“ segir Kolbrún. „Ég fór svo aftur til Svíþjóðar í frí með fjölskyldunni síðasta sumar og uppgötvaði þá að ég hafði svolítið gleymt því hvernig það væri að upplifa sænskt sumar. Ég skoraði því á sjálfa mig að skrifa lag á sænsku sem gæti fangað þessa sumartilfinningu. Úr varð svo þetta litla bossa nova lag.“

Eru Svíar ekkert að forvitnast um lagið; að lag á sænsku með íslenskum flytjanda sé við toppinn á vinsældalista Rásar 2? „Þegar lagið kom fyrst út hélt ég að fólk í Svíþjóð myndi hlusta á það meira en það gerði. Í fyrstu var þetta eiginlega allt vinafólk mitt og fjölskyldurnar frá Stokkhólmi sem lögðu við hlustir. En það kom mér svo verulega á óvart þegar ég kíkti inn á Apple Music að þar hafði lagið verið sett inn á “Midsommar” playlista og fengið fjöldann allann af spilunum. Einnig hef eg fengið mörg hrós frá fólki sem hefur heyrt í mér í útvarpinu undanfarið og verið hrifið af sænskunni jafnvel þótt það talar sænsku sjálft eða ekki, en það er náttúrulega Rás 2 mikið að þakka.

Ertu að túra eitthvað í sumar? „Ég er soldið að taka því rólega í tónleikunum í sumar og er aðallega að ferðast smá um Ísland að spila. Við Óviti spiluðum til dæmis á Vagninum á Flateyri í fyrsta skiptið um daginn í góðum félagskap. Svo hélt ég mína fyrstu útgáfutónleika í lok júní til að fagna útgáfunni á plötunni RAMMAR. Þangað mætti múgur manns og ég gæti ekki ímyndað mér betri fyrstu útgáfutónleika. Framundan liggur leiðin aðallega í það að fara að semja meiri tónlist með öðrum manneskjum, vinna með nýju fólki og semja lög fyrir aðra sem mig hefur lengi langað að gera,“ segir Kolbrún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir