Hvatarmenn náðu í stig gegn Njarðvík á útivelli
Á vef Húna.is er sagt frá leik Hvatar og Njarðvíkur sem fram fór í gær í Njarðvík og er tilgreint að ekki hafi verið skemmtilegur né góður leikur þegar liðin mættust. Jafntefli 1 - 1 var niðurstaðan.
Í fyrri hálfleik bar það helst til tíðinda að á 25. mínútu var Gissuri Jónassyni fyrirliða Hvatar vikið af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald á stuttum tíma. Við þetta færust Hvatarmenn allir í aukana og náðu að setja mark á 42. mínútu þegar Óskar Snær Vignisson kom boltanum í netið.
Heimamenn virtust ekki geta fært sér liðsmuninn því gestirnir höfðu í fullu tré við þá einum færri. Fátt var um markfæri í seinnihálfleik eins og þeim fyrri og allt stefndi í sigur Hvatar þegar Alexander Magnússon náði að jafna leikinn á 87. mínútu. Við markið reyndu Njarðvíkingar hvað þeir gátu til að bæta við marki en ekki gekk það.
Þessi leikur telst seint með þeim betri en eini ljósi punkturinn í honum var barátta Hvatarmann sem ekki voru langt frá því að skila þeim þremur stigum.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.