Húsmæður syngja ABBA
Fimmtudagskvöldið 30. apríl verða haldnir tónleikar í nýja Miðgarði undir heitinu Sönglög á Sæluviku. Mun þar 10 manna hljómsveit undir stjórn Stefáns Gíslasonar og Einars Þorvaldssonar syngja íslensk sönglög í bland við ABBA lög.
Dagskráin verður tvískipt en fyrir hlé munu hin gömlu góðu íslensku dægurlög verða í hávegum höfð en eftir hlé munu þær Kolbrún Grétarsdóttir og Sigurlína Einarsdóttir syngja ABBA lög. Aðrir söngvarar eru Óskar Pétursson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Dúi Benediktsson. –Þau þrjú síðarnefndu eru nú þekktari nöfn en Kolbrún og Sigurlína en þær hafa verið að koma fram á skemmtunum í sveitinni og sungu síðast á stóra Þorrablótinu nú fyrr í vetur, útskýrir Stefán.
Aðspurður segist Stefán verða spenntur fyrir að halda loks tónleika í hinum nýja Miðgarði, -Ég geri mér vonir um að hljómburður í húsinu sé frábær auk þess sem í húsinu er nýtt hljóðkerfi sem verður frábært að fá tækifæri að vinna með. Nú síðan ber ég sjálfur svo miklar taugar til hússins enda hef ég starfað þar í yfir 20 ár mörgum sinnum í viku svo ég tali nú ekki um gömlu minningarnar frá því að maður kom þarna sem ungur maður, segir Stefán með einhvern óútskýrðan glampa í augum.
Kom þá kannski fyrsti kosinn í Miðgarði? –Það er ekki ólíklegt, svarar Stefán og hlær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.