Húnvetnskur bóndi fluttur suður með sjúkraflugi í kjölfar vinnuslyss
Sagt var frá því í fjölmiðlum í dag að bóndi í Austur-Húnavatnssýslu var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur til aðhlynningar eftir að hafa orðið fyrir efnabruna eftir stíflueyði. Mbl.is segir að slysið hafi átt sér stað fyrir utan sveitabæ bóndans, ekki langt frá Skagaströnd, fyrir hádegi í dag.
„Hann er að vinna með stíflueyði í einhverri lögn fyrir utan hjá sér. Svo er eins og eitthvað springi á móti honum og fari yfir hann,“ segir Pétur Björnsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.
Pétur gat ekki sagt til um ástand mannsins, en tók fram að efnið hefði verið ætandi.
Sem fyrr segir var maðurinn fluttur siður með sjúkraflugi en þetta mun vera í níunda skipti sem sjúkraflugvél hefur lent á Blönduósflugvelli frá því að flugvöllurinn vat tekinn í notkun á ný í haust eftir viðgerðir. Sökum vætutíðar í haust er mönnum til efs að unnt hefði verið að lenda á vellinum í öllum tilfellum ef hann hefði ekki verið lagfærður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.