Hönnun nýrra þekkingargarða á Sauðárkróki kynnt

Á vef SSNV segir að þau séu þátttakandi í spennandi verkefni um uppbyggingu nýsköpunargarða í Skagafirði í samvinnu við Háskólann á Hólum, Hátæknisetur Íslands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Í liðinni viku var kynningarfundur með fulltrúum sveitarstjórnar í Skagafirði og fleiri aðilum þar sem dönsku arkitektarnir frá NORRØN ásamt Magnúsi Frey Gíslasyni arkitekt kynntu fyrstu drög að hönnun á görðunum.
Í verkefninu felast mikil tækifæri til að skapa störf á svæðinu og leggja grunn að fjölbreyttari atvinnu tengt nýsköpun og matvælaframleiðslu. Ástæðan fyrir því að farið var af stað í verkefnið er sú að einstakt tækifæri til uppbyggingar á þekkingargörðum skapast með uppbyggingu sérhæfðs kennsluhúsnæðis á Sauðárkróki og með myndun Háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Skagafjörður er eitt öflugasta matvælaframleiðslu hérað landsins með einstakt aðgengi að fjölbreyttu hráefni sem styrkir verkefnið enn frekar. Það er von okkar að verkefnið muni leiða af sér fjölda nýrra starfa og ný fyrirtæki sem munu efla Norðurland vestra í heild.
Verkefnið hlaut styrk úr Lóu nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina og var kynningin m.a. hluti af þeirri vinnu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.