Hofstorfan fær ekki þrætuland

Hofstorfan slf., samlagsfélag Baltasar og Lilju Pálmadóttir á Hofi í Skagafirði, töpuðu dómsmáli í Héraðsdómi Norðurlands vestra í vikunni. Málið snýst um landskika sem liggur á milli lands þeirra og bæjarins Þrastarstaða en þau töldu hann tilheyra Hofi.

 

Deilan um landspilduna sem er um 115 hektarar hefur staðið í áratugi en hann var seldur undan landareign Hofs árið 1922 en vegna mistaka var skikanum ekki þinglýst sem séreign fyrr en árið 2008. Var þess krafist að viðurkenndur yrði eignarréttur Hofstorfunnar á landspildunni, sem afmörkuð er í afsali og þinglesið á manntalsþingi á Hofsósi hinn 20. júní 1922. Dómurinn studdist við gögn allt aftur til 1882 og mörg vitni gáfu skýrslur.

 

Lilja Pálmadóttir og Baltasar Kormákur keyptu jörðina Hof í Skagafirði sumarið 2003 og bar Lilja fyrir dómi að við kaupin hafi seljendur Hofs gengið með henni á landamerki jarðarinnar og þá hafi ekki komið fram nein óvissa um merkin og töldu þau landspilduna sem deilt var um, vera í sinni eigu. Dómari taldi ekki sannað að sala skikans árið 1922 hafi gengið til baka og dæmdi því í hag hinna stefndu. Málskostnaður var látinn falla niður.

 

Sjá má dóminn í heild sinni HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir