Hlustaði ansi oft á Pearl með Janis Joplin / ÍSABELLA LEIFS
Dagrún Ísabella Leifsdóttir er óperusöngkona sem býr í Reykjavík. Hún er alin upp á Sauðárkróki en bjó líka í Kópavogi, Hafnarfirði, Þingeyri og á Hjaltlandseyjum. Dagrún Ísabella lærði lengi á blokkflautu og kann á píanó. Henni finnst ekki rétt að dömur séu spurðar að aldri.
Spurð út í helstu tónlistarafrek svarar hún: „Akkúrat núna er ég stolltust af að hafa stofnað Alþýðuóperuna ásamt systur minni Signýju og fleiru góðu fólki. Við munum sýna Ráðskonuríki eftir Pergolesi í haust.“
Uppáhalds tónlistartímabil? 1940-1960, þá voru skrifuð svo mörg falleg sönglög. Ég ætla einmitt að flytja sum af þeim íslensku í sundlaugum landsins í sumar en ég og Jón Gunnar Biering, gítarleikari förum í sundlaugar og brestum í söng og leik.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hlusta mikið á söngtónlist þessa dagana, enda hugurinn við öll þau spennandi verkefni sem eru framundan, ég er meðal annars að undirbúa keppnisferð til Vínar, en ég var valin af Íslensku Óperunni til að taka þátt í keppninni Hans Gabor Beldevere sem verður nú í júlí.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var kveikt nánast látlaust á Rás 2 heima. En pabbi dró stundum fram plöturnar og hlustaði á rokk. Ég hafði líka gaman af því að draga fram plöturnar hans þegar ég var unglingur og hlustaði ansi oft á Pearl plötuna hennar Janis Joplin og söng hátt með.
Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Fyrsta kasettan sem ég átti var skilin eftir af fyrri íbúum hússins sem við fluttum í á Hjaltlandi, það var Dolly Parton og ég hlustaði á Jolene aftur og aftur. Pabbi gaf mér svo fyrsta geisladiskinn, það var platan A Night at the Opera með Queen –kannski var það fyrirboði…
Hvaða græjur varstu þá með? -Með geisladisknum fylgdi forláta ferðageislaspilari frá Ameríku, þessi ferðageislaspilari hætti þó að spila við minnstu hreyfingu! Okkur systrum þótti þessi græja stórmerkileg.
Hvað syngur þú helst í sturtunni? -Mercedes Benz hennar Janis Joplin, Can’t Help Lovin’ Dat Man sem Ella Fitzgerald gerði svo frægt og svo finnst mér gaman að syngja tenór og mezzó aríurnar sem ég fæ aldrei að syngja! Eins og Che gelida úr Boheme og Una voce poco fa úr Rakaranum frá Sevilla.
Wham! eða Duran? -Bara bæði betra. Ég er sem betur fer aðeins of ung til að hafa skoðun á þessu.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Oh, þau eru svo mörg! En ég held m.a. mikið uppá Nínu, Waterloo, La det swinge og All Kinds of Everything.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Working 9 To 5 með Dolly Parton og Fuck You með Lily Allen virka alltaf. Svo er alltaf fyndið að skella Bohemian Rhapsody með Queen á þegar allir eru orðnir hressir, sérstaklega ef það eru margir óperusöngvarar á svæðinu.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Ég myndi stilla á listann sem heitir Rólegt og rómantískt í vasadiskóinu og inniheldur lög með Herbie Mann, Ellu Fitzgerald, Dolly Parton, Reginu Spektor og fleirum.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ég myndi fara á sýningu með Ninu Stemme, hún er dásamleg óperusöngkona. Hún er að syngja Brynhildi í Niflungahring Wagners í sumar í Munchen, ég væri alveg til í að sjá hana þar og taka eiginmanninn með.
Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? -Madonna! Þegar ég var lítil var ég ákveðin í að verða Madonna þegar ég yrði stór.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Úff, erfið spurning. En akkúrat núna segi ég Biophilia með Björk, hún er stórkostleg og svo miklu meira en bara plata.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.