Hill slapp við bann og útlit fyrir háspennuleik í Síkinu
Einvígi Tindastóls og Keflavíkur í úrslitakeppninni í körfubolta er nú komið á þokkalegasta spennustig eftir að Keflvíkingar komu á óvart í þriðja leik liðanna og náðu að landa fyrsta sigri sínum á Stólunum í vetur. Þar með hafa Tindastólsmenn sigrað tvisvar í viðureigninni en Keflvíkingar einu sinni. Fjórði leikur liðanna fer fram á Króknum annan í páskum og hefst kl. 19:15.
Keflvíkingar hafa í kjölfar sigursins verið í snotrum fjölmiðlaleik sem gengur út á að segja Tindastólsmenn farna á taugum og að þeir séu hræddir. Suðurnesjamenn hafa ákveðið að bjóða stuðningsmönnum ókeypis rútuferð norður á Krók til að styðja við bakið á sínum mönnum og því full ástæða fyrir heimamenn að mæta tímanlega í Síkið.
Ekki ástæða til að gefa út kæru á Hill
Tindastóll sendi inn kæru til aganefndar eftir atvik í síðasta leik liðanna þar sem Jerome Hill sló til Helga Freys Margeirssonar. Aganefnd komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Aga- og úrskurðarnefnd getur ekki litið á erindi Tindastóls sem formlega kæru enda hafa félög skv. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál ekki kærurétt í agamálum, heldur ábendingarétt. Eftir að hafa litið á þau gögn sem bárust er það mat nefndarinnar að ekki sé ástæða til að gefa út kæru. Ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar er ekki úrskurður, heldur ákvörðun um að taka málið ekki fyrir formlega eftir að að hafa skoðað málsatvik.“
„Allir vita að það var ekki ásetningur í þessu hjá mér. Ef ég hefði ætlað að slá hann þá hefði hann ekki staðið upp, svo mikið er víst." sagði Hill í samtali við Karfan.is í dag. Svo heldur Hill áfram kokhraustur: „Ég skil það að þeir séu að fara á taugum eða eru hræddir. En þessi kæra hjá þeim var högg undir belti finnst mér. Þeir vita að við erum búnir að finna okkar fjöl í þessu einvígi og eru augljóslega orðnir taugaóstyrkir. Ég er ekki óheiðarlegur leikmaður og það vita allir. Ég er ánægður að þessu sé lokið og að við getum farið að spila körfuknattleik."
Leikurinn verður sýndur á Stöð2Sport.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.