Heiminn vantar fleiri faðmlög | Leiðari 14. tbl 2024
Faðmlag er eitt af mörgum fallegum orðum í íslenskunni. „Faðmlög eru einstaklega jákvæð leið til samskipta og til að sýna væntumþykju. Vinir faðmast og við sýnum fólkinu okkar væntumþykju með faðmlögum,“ segir á netsíðunni Hjartalíf.is og þar er reyndar sagt að faðmlög minnki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og losi um streytu. Það eru því fá – ef einhver – lög betri en faðmlögin og þau ættu að ósekju að tróna á toppi vinsældalista okkar íbúa bláa hnattarins.
Það er allt á suðupunkti í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem eitt púslið í heimsmyndinni virðist ekki passa. Það er Ísrael. Nasistar reyndu að útrýma gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni en talið er að um sex milljón gyðingar hafi verið drepnir í helförinni. Eftir stríð var ákveðið að finna gyðingum griðastað í Palestínu. Gyðingar, sem hafa verið ofsóttir í aldanna rás, eru minnihlutahópur í öllum löndum nema Ísrael.
Mörgum þykja Ísraelsmenn vera herskáir og svari árásum á sig allt of harkalega. Fólk horfir á ástandið á Gaza með hryllingi þar sem flestir sem hafa fallið í árásum Ísraela á svæðið, eftir árás Hamas á Ísrael í október, eru saklausir borgarar. Nú um helgiina fjölgaði púðurtunnum svæðisins umtalsvert þegar Íranir svöruðu árás Ísraela á sendiráð sitt í Damaskus með því að gera dróna- og flugskeytaárás á Ísrael. Íranir hafa þá stefnu að tortíma Ísrael.
Í liðinni viku mátti sjá viðtal við ísraelska konu sem hafði misst ástvin í árás Hamas í október. Hún hafði áður unnið að því að treysta vinabönd milli Ísraela og Palestínumanna – en ekki lengur. Henni fannst hún hafa verið barnaleg að hafa treyst nágrönnum sínum og ætlaði ekki að falla í þá gryfju afrur. Að viðhalda vantrausti og hatri virðist hreinlega hafa verið takmark Hamas með árásinni í október.
Þetta eru auðvitað aðstæður sem enginn getur skilið sem ekki hefur reynt á eigin skinni. Hugsið ykkur ef við grannarnir á Norðurlandi vestra mættum búast við því að verða fyrir árás þegar við renndum á glæsikerrum okkar yfir Þverárfjallið – að hinum megin við fjallið væri fólk sem hataði okkur og vildi fátt frekar en að murka úr okkur lífið. Já, tilhugsunin er auðvitað fáránleg en þetta er engu að síður veruleiki fólksins sem býr fyrir botni Miðjarðarhafs.
Nöturleg staðreyndin er auðvitað sú að hvert dráp leiðir af sér meira hatur og á meðan hverri árás er svarað, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, þá breytist fátt til batnaðar. Hér á því væntanlega við gamla lumman; hið illa sigrar ef góðir menn aðhafast ekkert,
Heiminn vantar fleiri faðmlög. Eða eins og Jón Kalman Stefánsson segir í einni bóka sinna: „Helvíti er að hafa handleggi en engan til að faðma.“
Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri Feykis – skrifað 15. apríl 2024
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.