Haukar komu, sáu og sigruðu

Haukar fagna með stuðningsmönnum sínum um leið og Tindastólsmenn þakka sínu fólki stuðninginn.  MYND: ÓAB
Haukar fagna með stuðningsmönnum sínum um leið og Tindastólsmenn þakka sínu fólki stuðninginn. MYND: ÓAB

Haukar komu í heimsókn í Síkið í kvöld á afmælisdaginn sinn og stefndu að sigri gegn liði Tindastóls í fjögurra liða úrslitum Dominos-deildarinnar. Leikurinn var jafn og æsispennandi allan tímann og úrslitin ekki ljós fyrr en eftir að leik lauk. Þá kom í ljós að Helgi Margeirs hleypti af byssunni sekúndubroti of seint og leiktíminn úti þegar þristurinn þaut af stað í átt að körfunni. Haukar fögnuðu því sæti í úrslitarimmunni gegn KR eða Njarðvík og verður að segjast eins og er að þeir voru sterkara liðið í einvíginu. Lokatölur urðu 68-70.

Körfuknattleiksdeildin setti upp glæsilega ljósa- og reyksýningu þegar lið Tindastóls var kynnt til leiks og stemningin frábær löngu áður en leikurinn hófst. Tvær langferðabifreiðar úr Hafnarfirði fluttu með sér ferska Hauka sem settu sannarlega góðan brag á stemninguna.

Tindastólsmenn fóru betur af stað í leiknum og ætluðu augljóslega að selja sig dýrt. Haukarnir voru þó aldrei langt undan og staðan 11-9 fyrir Tindastól eftir fimm mínútna leik. Þá kom góður kafli hjá heimamönnum sem náðu átta stiga forystu, 21-13. Gestirnir gerðu hins vegar sex stig á síðustu mínútu leikhlutans og minnkuðu muninn í 21-19. Kristinn Marinósson kom sterkur inn hjá Haukum í öðrum leikhluta og sá til þess að Stólarnir færu ekki langt framúr. Um miðjan leikhlutann hrökk allt í lás í sókninni hjá heimamönnum sem skoruðu ekki í fjórar mínútur og Haukar yfir 32-36 þegar tvær og hálf mínúta voru til leikhlés. Strákarnir rifu sig í gang síðustu tvær mínúturnar og körfur frá Helga Viggós, Svabba og Pétri komu Stólunum aftur yfir. Haukarnir gerðu þó síðustu fjögur stigin og voru yfir í hálfleik, 39-41.

Leikmenn Tindastóls voru alveg úti í móa á upphafsmínútum þriðja leikhluta. Haukarnir gengu á lagið, stálu boltanum og fengu boltanum oft ansi ódýrt eftir vondar sendingar eða ótímabær skot. Eftir þriggja mínútna leik höfðu Stólarnir ekki gert eitt einasta stig en gestirnir tólf og staðan 39-53. Helgi kallaði til fundar og strákarnir náðu að stíga upp og herða róðurinn. Þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka var staðan 44-56 fyrir Hauka sem áttu þá aðeins eftir að skora 14 stig það sem eftir lifði leiks! Pétur og Dempsey gerðu næstu 11 stig leiksins og skyndilega var leikurinn opinn upp á gátt, staðan 55-56. Enn voru það þó Haukar sem enduðu leikhlutann betur og átti það eftir að verða saga leiksins. Staðan 57-62 fyrir fjórða leikhluta sem var eitt allsherjar varnar- og taugastríð.

Það voru næstum liðnar sex mínútur af leikhlutanum þegar Haukum tókst að gera fyrstu stigin sín og minnkuðu þá muninn í 66-64. Nú var nánast sama hverju liðin köstuðu á körfurnar, boltinn bara vildi ekki ofaní. Varnardans var stíginn um allan völl og menn lögðu allt í sölurnar. Tindastóll gerði aðeins tvö stig síðustu fjórar mínútur leiksins en Haukar fjögur. Það dugði gestunum. Kári Jóns, sem er búinn að vera stórkostlegur í úrslitakeppninni, setti niður tvö víti þegar 23 sekúndur voru eftir og var öryggið uppmálað. Stólarnir tóku leikhlé og ætluðu að eiga síðasta orðið í leiknum. Leikfléttan klikkaði hinsvegar en boltinn barst á hægri kantinn til Helga Margeirs í þann mund sem klukkan gall, Helgi skaut 3ja stiga skoti í spjaldið og niður. Bæði lið fögnuðu en eftir að dómararnir höfðu skoðað upptökur varð ljóst að skotið kom of seint – eins og reyndar flesta hafði grunað. Lokatölur 68-70 fyrir Hauka.

Sem fyrr segir voru Haukar sterkari í þessu spennandi einvígi liðanna. Þeir náðu oftar en ekki góðu framlagi frá fleiri leikmönnum í liði sínu en Stólarnir. Í kvöld voru fimm leikmenn Hauka með tíu stig eða meira á meðan aðeins þrír leikmenn Stólanna náðu því marki. Þá höfðu Haukar hæðina framyfir Stólana en engu að síður var frákastabaráttan ansi jöfn í kvöld (38/40).

Enn á ný var Pétur Birgisson bestur í liði Tindastóls. Kappinn skilaði 16 stigum, sex fráköstum, fimm stoðsendingum og stal fjórum boltum. Hann hefur nánast spilað óaðfinnanlega í úrslitakeppninni. Dempsey var stigahæstur með 24 stig og hann tók átta fráköst líkt og Helgi Viggós. Þá átti Lewis ágætan leik og gerði 18 stig en stigaskort annarra leikmanna var varla til staðar. Hjá Haukum var Mobley með 16 stig og 16 fráköst en þrátt fyrir að vera með Viðar í andlitinu mest allan leikinn gerði Kári 15 stig og allt saman stórar körfur á mikilvægum augnablikum. Spaðaásinn hjá Haukum að þessu sinni var síðan framlag Kristins Marinóssonar sem kom með ellefu sterk stig af bekknum.

Tindastólsmenn eru því komnir í sumarfrí og verður spennandi að fylgjast með framvindu mála hjá Stólunum. Nokkrir leikmenn eru nokkuð við aldur og aðrir komnir á háskólaaldur. Veturinn hefur verið liðinu erfiður en miklar væntingar voru fyrir tímabilið. Tindastólsrútan fór laglega út af veginum í byrjun móts undir finnskri stjórn, erlendir leikmenn stóðu ekki undir væntingum. Jou Costa náði að koma liðinu á rétta braut og spennandi tímar voru framundan í lok janúar þegar Dempsey og Gurley komu til liðsins í stað Hill og Addús. Í fyrsta leik þeirra félaga með liðinu meiddist hins vegar Darrel Flake og hefur ekki komið við sögu síðan. Í síðustu viku yfirgaf Gurley síðan liðið og breiddin því ekki sú sem til stóð.

Það vantar hinsvegar ekki að strákarnir stóðu sig eins og hetjur og skemmtu stuðningsmönnum sínum með góðum leik og miklu hjarta. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Dempsey 24, Lewis 18, Pétur 16, Ingvi Rafn 3, Svabbi 3, Helgi Viggós 2 og Viðar 2.
Haukar: Mobley 16, Kári 15, Kristinn M. 11, Haukur 11, Finnur 10, Emil 6 og Kristinn J. 1.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir