Hallbjörn heiðraður
Kántrýdagar fóru fram á Skagaströnd um helgina en á hátíðinni var hinum eina og sanna kántrýkóngi, Hallbirni J. Hjartarsyni, veitt viðurkenning „fyrir að hafa verið frumkvöðull íslenskrar kántrýmenningar. Hann hefur með kántrýtónlist sinni og menningarstarfi skapað verðmæti til framtíðar og vakið athygli alþjóðar á Skagaströnd“, eins og segir í skjalinu sem hann fékk afhent. Hallbjörn þakkaði fyrir sig með ræðu og bað Skagaströnd allrar blessunar í nútíð og framtíð.
Kántrýdagar voru settir með fallbyssuskoti sl. föstudag en íbúar höfðu áður tekið forskot á sæluna á fimmtudagskvöld er nágrannar komu saman og skreyttu fyrir utan hýbíli sín og eins sitt nánasta umhverfi. Boðið var í veitingar á kofavöllum, trúbadorar spiluðu á útimarkaði, skemmtikraftar voru í stóra tjaldinu og á kvöldin var dansað á líflegum dansleikjum. Allt fór þó vel fram og skemmtu heimamenn sér og gestum bæjarins með líflegum Kántrýstæl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.