Hagsmunir íbúa og fyrirtækja fara saman
Engum dylst það umrót sem íslenskt samfélag er í um þessar mundir. Þó feikna brýn verkefni bíði úrlausnar er viðfangsefnum bætt við, líkt og ekkert sé við að vera fyrir ráðamenn þjóðarinnar, og kjósa stjórnvöld að gera tvennt í einu sem tæplega fer vel saman, borða kökuna og geyma hana.
Menn taka sig til og breyta fiskveiðistjórnun á þann hátt að deildar meiningar eru uppi um fordæmisgildi breytingarinnar á sama tíma og menn ætla að setjast yfir það verkefni að ræða í sátt og samlindi um nauðsynlegar breytingar. Vitanlega er sjálfsagt og eðlilegt að menn ræði saman um breytingar, velti því fyrir sér hverju menn vilja ná fram með breytingum, hví þurfi að breyta, hvenær menn vilji breyta o.s.frv. Ekkert er eilíft og því eðlilegt að breyta því sem breyta þarf. En þá skulu menn gera eitt í einu ræða breytingar, komast að samkomulagi og svo loks breyta. Tæplega er rétt að ráðast í breytingar og ræða nauðsyn þeirra að þeim loknum. Menn geyma tæplega köku sem menn hafa klárað að borða.
Hagsmunir Skagfirðinga og skagfirskra útgerða fara gjarnan saman, því gangi fyrirtæki vel þá getur það lagt meira af mörkum til samfélagsins. Sjávarútvegsfyrirtæki, í Skagafirði sem og annarsstaðar, greiða líkt og önnur fyrirtæki ýmislegt til samfélagsins, laun, opinbergjöld, að keypta þjónustu o.s.frv.. Þegar kreppir að hjá þjóðinni þá munar um hverja krónu sem velt er í viðskiptum hér á landi. Sveitarstjórn í Skagafirði ber að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og því er rétt að sveitarstjórn gæti hagsmuna þeirra fyrirtækja sem starfa í sveitarfélaginu. Stöðugleiki í fiskveiðistjórn er til hagsbóta fyrir Skagfirðinga, því án stöðugleika er framtíðin óljós og því minni hvati en ella til framkvæmda sem eru til hagsbóta fyrir íbúa héraðsins. Án stöðugleika er illmögulegt að gera raunhæfar áætlanir fyrir uppbyggingu fyrirtækja og atvinnustarfsemi til frambúðar.
Arnljótur Bjarki Bergsson
13. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.