Gunnar Bragi lék fótbolta við börn í flóttamannabúðum
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands og Króksari, brá undir sig betri fætinum í heimsókn um Miðausturlönd í gær þegar hann skellti sér fótbolta við börn í flóttamannabúðum fyrir Palestínumenn í Betlehem. Gunnar Bragi hefur bæði heimsótt Ísrael og Palestínu. Í dag er ráðgert að hann fari til Jórdaníu.
mbl.is greindi frá þessu í gær en samkvæmt fréttinni er smíði vallarins hluti af verkefni Sameinuðu þjóðanna sem miðar að því að ná fram frið með þátttöku í íþróttum. Völlurinn er hluti af svokölluðum barnvænum svæðum sem reisa á meðal annars í flóttamannabúðum og er völlurinn fyrsta slíka svæðið.
„Sagði Felipe Sanchez, yfirmaður verkefnisins á Vesturbakkanum, að barnvænu svæðin væru fullkominn vettvangur fyrir börn sem byggju við erfiðar aðstæður að leika sér og kynnast nýjum vinum. Í búðunum byggju þau við ítrekað ofbeldi, táragas og fleira sem gerði líf þeirra erfitt,“ segir í frétt mbl.is.
Gunnar Bragi og tveir aðrir Íslendingar mættu til leiks klæddir íslenska búningnum. Auk Gunnars Braga spiluðu diplómatar frá fjölmörgum löndum, yfirmaður verkefnisins og fleiri.
Fótafimi Gunnars Braga kom til umræðu á Stuðningsmannasíðu knattspyrnudeildar Tindastóls í gærkvöldi. „Tindastóll hefur verið að skoða leikmenn fyrir komandi keppnistímabil. Nú virðist leitinni vera lokið því Gunnar Bragi sem er í æfingabúðum í Betlehem hefur ákveðið að koma heim og leika með Tindastóli í sumar,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson formaður knattspyrnudeildarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.